Gjaldeyrishöft og takmarkanir stjórnvalda á fjárfestingar erlendra aðila hér gera fyrirtækjum í alþjóðlegum rekstri erfitt fyrir, að sögn Theo Hoen, forstjóra Marel. Hann fór yfir málið á ráðstefnu Landsbankans um stöðu og horfur hér. Hann sagðist hafa átt í viðræðum við erlenda fjárfesta. Þeir vilji hins vegar ekki festa fjármagn sitt hér vegna þess hversu erfitt það er.

Þá sagði hann haftastefnuna hér fjötur um fót bæði hluthöfum Marel og starfsfólki Marel sem vilji innleysa kauprétt sinn.

„Það tók samstarfsmenn mína tvær vikur að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu,“ benti hann á. Í pallborðsumræðum bætti Hoen við að lítið mat á íslensku krónunni á erlendum mörkuðum valdi því að bandarískir hluthafar Marel þurfi að færa niður verðmæti eignarhlutar síns í fyrirtækinu um allt að 20%. Hann sagði Marel í vissum skilningi komið að endimörkum. Það sé hins vegar í höndum hluthafa hvaða skref fyrirtækið stigi til að yfirstíga erfiðleikana sem gjaldeyrishöftin valda því.

Forstjóri Marel bar jafnframt saman stöðuna hér og í Hollandi. Hollendingar setji sér markmið og séu ekki áhættusæknir, í raun stýri þeir orðið áhættunni, ekki síst í Evrópu. „Íslendingar geta lært margt á okkur. En þeir hafa gott af sparki í afturendann,“ sagði hann.