Jerry Yang, forstjóri netrisans Yahoo! mun láta af embætti strax og búið er að finna eftirmann hans.

Tilkynnt var um þessa breytingu í gær en 17 mánuðir eru liðnir síðan hann sneri aftur í forstjórastól fyrirtækisins.

Helsta ástæðan er talin vera sú að Yang neitað að taka tilboði tölvurisans Microsoft í sumar sem vildi kaupa Yahoo! fyrir 47,5 milljarða dollara sem á þeim tíma var talið vera þrefalt markaðsvirði fyrirtækisins. Síðan þá hefur verðmæti Yahoo! fallið mikið.

Yang mun þó starfa áfram í stjórn fyrirtækisins og vinna að alþjóðlegri stefnumótun þess.

Jerry Yang stofnaði Yahoo! ásamt skólabróður sínum David Filo árið 1995 en báðir voru þeir nemendur við Standford háskóla í Bandaríkjunum.