Wall Street Journal heldur því fram að Matthias Mueller, forstjóri Porsche, verði næsti forstjóri bílaframleiðandans Volkswagen. Talsmaður Porsche í Þýskalandi vildi ekki staðfesta fréttirnar í samtali við Business Insider.

Stjórn Volskwagen mun hittast á föstudag og velja arftaka fráfarandi forstjórans Martin Winterkorn, sem sagði af sér í gær vegna skandals tengdum fyrirtækinu. Á Volkswagen að hafa búið til tæknibúnað sem blekkti eftirlitsaðila þegar kom að losun hættulegs úrgangs úr bifreiðum fyrirtækisins, sem lét þá líta út fyrir að vera umhverfisvænni en þeir í raun voru.

Því hefur einnig verið haldið fram að fleiri hátt settir aðilar innan Volkswagen hafi misst og muni missa vinnuna í kjölfar skandalsins. Fyrirtækið hefur þó ekkert staðfest ennþá.

Áðurnefndur Mueller hefur lýst yfir vilja sínum til að taka við forstjórastöðunni hjá Volkswagen, en fyrr á árinu var einnig talið líklegt að hann tæki við af Winterkorn. Hann þykir hafa unnið frábært starf hjá lúxusbílaframleiðandanum Porsche.