Jan Åke Jonsson, forstjóri sænska bílaframleiðandans Saab Automobile, tilkynnti nú í morgun ákvörðun sína að láta af störfum í kjölfar aðalfundar félagsins sem fram fer 19. maí nk. Viktor Muller, stjórnarformaður félagisns, tekur við stjórnartaumunum til bráðabirgða. Frá þessu greina sænskir fjölmiðlar.

Í tilkynningu sem Jonsson sendi frá sér í morgun segist hann hafa starfað hjá Saab í 40 ár og þar af sem forstjóri undanfarin sex ár en nú sé kominn tími til að snúa sér að öðru. Rekstur Saab hefur sem kunnugt er verið mjög erfiður undanfarin ár en félagið var um nokkurt skeið í eigu General Motors en stefndi í þrot þegar hollenski sportbílaframleiðandinn Spyker eignaðist það.