„Við erum ekki upptekin af fortíðinni og horfum til framtíðar,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. Tryggingafélagið kynnti í dag nýtt merki sem hefur verið tekið í notkun. Merkið er byggt á formi eldra merkis en hefur verið einfaldað og mýkt með ávölum línum og einum lit sem er rauður.

Sigrún segir í samtali við vb.is breytinguna lið í umfangsmikilli stefnumótunarvinnu sem hafi verið ráðist í á árinu og mótun framtíðarsýnar til næstu ára.

Fram kemur í tilkynningu frá VÍS, að Hjörvar Harðarson á auglýsingastofunni ENNEMM hafi hannað nýja merkið. VÍS notaði rauða litinn áður sem hluta af merki sínu og fyrir dótturfélagið Lífís.

Sigrún bendir á að ekki hafi verið gerðar miklar breytingar á merki tryggingafélagsins síðan árið 1989.

VÍS var fyrir hrun í eigu Exista en heyrir í dag undir Klakka, sem tók yfir eignir Existu af fyrri eigendum. Fyrirtækið er með um 36 til 37% markaðshlutdeild á tryggingamarkaði.

Hér að neðan má sjá hvernig gamla merkið leit út.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)