Ingi Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins Landeyjar, söðlaði um árið 2004 og færði sig frá verktakafyrirtækinu Háfelli í bankageirann. „Þetta var töluverð breyting á sínum tíma. Ég hafði varla komið inn í banka þegar ég réð mig inn í geirann,“ segir Ingi um breytinguna. Hann lauk MBA námi árið 2001 og segir að í kjölfarið hafi hann langað að sækja sér öðruvísi reynslu. „Það var drifkrafturinn í að prófa eitthvað nýtt,“ segir Ingi.

Ingi hefur víða komið við og hefur til dæmis gegnt stjórnarstörfum í Landey, Heklu, SMI fasteignafélagi og jafnvel hjá sokkaframleiðanda í New York.

Aðspurður hvernig það hafi komið til segir Ingi fyrirtækið hafa tengst lánamáli í bankanum sem endaði á því að bankinn eignaðist hlut í félaginu. „Þetta var mjög skemmtileg lífsreynsla, svona á mínum fyrstu dögum sem bankamaður, að enda úti í New York með skapheitum og tilfinninganæmum Ítala sem stýrði fyrirtækinu. Hann átti það til að tárast á erfiðum fundum. Þetta var ævintýralegt,“ rifjar Ingi upp.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .