Í viðtali við stjórnendur Bakkavarar Group, þá Ágúst og Lýð Guðmundssyni í Viðskiptablaðinu í dag, kemur fram að þeir fagna mjög skráningu Mosaic í íslensku kauphöllina. Þeir eru mjög bjartsýnir á framtíð íslensku kauphallarinnar og hafa trú á að erlendar greiningardeildir beini augum sínum þangað í auknum mæli og leggi fram verðmat á félögin sem sé nauðsynlegt til að draga erlenda fjárfesta.

Þeir bræður sögjast í viðtalinu vera bjartsýnir á þróun íslensku kauphallarinnar og fögnuðu þess vegna sérstaklega þeirri ákvörðun Mosaic að skrá sig hér á landi. "Það er einfaldlega frábært að fá þá hingað inn og ég held að það sé stærra skref í þróun hlutabréfamarkaðar á Íslandi en flestir gera sér grein fyrir. Þar sem við eðlilega lifum og hrærumst í ensku pressunni þá sjáum við að þetta hefur haft mikil áhrif. Þetta hefur vakið mikla athygli og beinir kastljósinu að markaðinum á Íslandi. Nú er komið alvöru neytendavörumerki í Bretlandi sem skráð er á hlutabréfamarkaðinn hérna. Þetta er mikil hvatning fyrir erlenda fjárfesta að byrja að fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Við sjáum fyrir okkur að þeir brjóti ísinn. Um leið og menn eru byrjaðir að fjárfesta á íslenska markaðinum, því þá ekki að fjárfesta í Bakkavör líka eða einhverjum bankanna eða Actavis? Þetta er því gríðarlega jákvætt og ég held að Kaupþing banki og Mosaic eigi heiður skilinn fyrir þetta framtak," sagði Ágúst. Lýður sagðist telja að það skipti miklu að ná mönnum inn þannig að þeir gætu myndað sér þekkingu á íslenska markaðinum. "Menn fara að horfa hingað og velta því fyrir sér að prófa og afla sér um leið þekkingar. Þá byrjar mönnum að líða vel og vilja svo halda áfram þegar þeir sjá að þetta er ekkert öðru vísi en á öðrum mörkuðum á Norðurlöndum. Þá hættir stærð markaðsins að skipta svo miklu máli."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.