Aðilar að samningum um kaup og sölu á hlutum FL Group í Straumi-Burðarási sem tilkynnt var um 28. júní síðastliðinn hafa náð samkomulagi að færa frágang viðskiptanna frá 20. júlí til 4. ágúst næstkomandi, segir í tilkynningu.

Engin breyting verður á skilmálum viðskiptanna, öðrum en tímasetningu á afhendingu hlutanna. Ástæða þess að frágangi viðskiptanna hefur verið frestað er sú að verið er að vinna að lýsingu FL Group vegna hinna nýju hluta sem gefnir verða út í tengslum við viðskiptin.

Samkvæmt nýjum lagaákvæðum sem tóku gildi 1. júlí síðastliðinn, og fela í sér breytingu frá fyrri reglum, verður nýtt hlutafé ekki skráð í Kauphöll Íslands fyrr en lýsing hefur verið birt. Í ljósi þessa var ákveðið að færa frágang viðskiptanna líkt og áður sagði.