Framsóknarflokkurinn hefur nú endurheimt „græna herbergið“ svokallaða á Alþingi eða sitt gamla þingflokksfundarherbergi. Þingflokkur Framsóknarflokksins fundaði í dag í herberginu í fyrsta sinn í fjögur ár.

Græna herbergið vakti athygli fjölmiðla eftir kosningarnar 2009 þegar Framsóknarmenn voru neyddir til að láta herbergið af hendi til þingflokks Vinstri grænna. Framsóknarflokkurinn fékk þá aðeins 14,8% fylgi og níu kjörna þingmenn á meðan Vinstri grænir fengu 21,7% fylgi og fjórtán kjörna þingmenn. Vinstri grænir höfðu áður verði í minna herbergi og gerðu í kjölfar kosninganna kröfu um að fá stærri herbergi til afnota (þó rétt sé að taka fram að VG fór ekki fram á fá neitt sérstakt herbergi, heldur aðeins stærra herbergi).

Forseti Alþingis, sem sér um úthlutun þingflokksherbergja, lét flokkana tvo skipta um herbergi en Framsóknarflokkurinn hafði fram að því haft herbergið til afnota í áratugi, eða allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Sem kunnugt er jók Framsóknarflokkurinn við sig verulegu fylgi í nýafstöðnum alþingiskosningum. Flokkurinn fékk 24,4% fylgi og 19 kjörna þingmenn. Á sama tíma fengu Vinstri grænir 10,9% fylgi og sjö kjörna þingmenn. Framsóknarflokkurinn bætti þannig við sig tíu þingmönnum á meðan Vinstri grænir töpuðu helmingi þingmanna sinna.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fagnar því á Facebook síðu sinni í dag að flokkurinn hafi endurheimt sitt gamla herbergi. „ – gleðidagur – við höfum endurheimt græna herbergið – og fundum nú þar“ segir Vigdís á síðu sinni.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram halda sínu herbergi, sem er blátt á litinn og beint á móti herbergi Framsóknarflokksins. Samfylkingin mun jafnframt halda sínu herbergi þrátt fyrir að hafa misst rúmlega helming þingmanna sinna.