*

mánudagur, 1. júní 2020
Erlent 21. maí 2019 19:02

Fresta gildistöku Huawei bannsins

Bandarísk yfirvöld hafa gefið þriggja mánaða frest eftir að bandarísk tæknifyrirtæki féllu í verði vegna bannsins.

Júlíus Þór Halldórsson
Xi Jinping, forseti Kína, og Ren Zhengfei, stofnandi og framkvæmdastjóri Huawei.
epa

Bandarísk yfirvöld hafa gefið fyrirtækjum þar í landi þriggja mánaða frest áður en viðskiptabann við tæknirisann Huawei tekur gildi. Financial Times segir frestinn gefinn til að draga úr neikvæðum áhrifum bannsins á bandarísk fyrirtæki sem stundað hafa viðskipti við kínverska félagið.

Huawei sagði frestinn hafa „litla þýðingu“, þar sem fyrirtækið hefði þegar verið búið að gera ráðstafanir til að undirbúa sig undir bannið. Ren Zhengfei, stofnandi og framkvæmdastjóri Huawei, sagði bandaríska stjórnmálamenn sýna með framferði sínu að þeir hafi „vanmetið styrk“ fyrirtækisins.

Bannið skellur fyrir bandarísk tæknifyrirtæki
Ákvörðun ríkisstjórnar Donalds Trump um að setja Huawei á bannlista í síðustu viku setti af stað lækkunarhrinu hlutabréfa bandarískra tæknifyrirtækja, en þeirra á meðal eru framleiðendur snjallsímaíhluta eins og örgjörva og loftneta, sem eiga mikil viðskipti við Huawei.

Dow Jones hlutabréfavísitala tæknifyrirtækja féll um tæp 2% við opnun markaða á mánudag, og hlutabréf Qualcomm – eins helsta loftneta- og örgjörvaframleiðanda heimsins fyrir snjallsíma, sem selur um 5-10% vara sinna til Huawei, og um helming til Kína – féllu um tæp 5%.

Áhrifin voru enn meiri á minni fyrirtæki sem eiga meira undir viðskiptum við tæknirisann kínverska. Neophotonics – kalifornískt fyrirtæki sem framleiðir gagnasenda fyrir 5G dreifikerfi – hefur um helming tekna sinna af viðskiptum við Huawei, og hlutabréf þess féllu um fimmtung.

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, sagði í tilkynningu um málið í gær að fresturinn gæfi framleiðendum tíma til að gera ráðstafanir vegna áhrifa bannsins á framleiðslu sína.

Auk þess gæfi hann ráðuneytinu ráðrúm til að finna varanlega lausn fyrir fjarskiptaveitur sem hingað til hafa reitt sig á búnað frá Huawei til að veita þjónustu sína.

Að mánuðunum þremur liðnum verður tekin ákvörðun um hvort fresturinn verði framlengdur frekar.

Segja fjármálaþjónstu við Íran ástæðu bannsins
Opinbera skýringin sem viðskiptaráðuneytið gaf fyrir banninu er sú að ákveðnir þættir starfsemi fyrirtækisins vinni gegn þjóðaröryggis- og utanríkishagsmunum Bandaríkjanna. Meðal þess er að veita Íran fjármálaþjónustu – þvert á viðskiptabann Bandaríkjanna – og að hindra framgang réttvísinnar við rannsókn á þeim brotum.

Flestir telja þó bannið vera lítt dulbúið útspil í samningaviðræðum Bandaríkjanna og Kína um tollamál, en bannið fylgdi í kjölfar þess að upp úr tollaviðræðum stórveldanna slitnaði fyrr í mánuðinum, eftir að Trump sakaði kínversk yfirvöld um að standa ekki við loforð um að binda í lög vernd fyrir bandarískt hugverk í Kína.

Í kjölfarið hækkuðu bandarísk stjórnvöld tolla á 200 milljarða dala virði af kínverskum innflutningi úr 10 í 25%, og hótuðu að leggja sama toll á 300 milljarða til viðbótar síðar í sumar.

Stikkorð: Donald Trump Huawei Ren Zhengfei