Í almennri umræðu um efnahagsmál, og sér í lagi þegar fjallað er um hvort ríkissjóður Íslands eigi að heiðra skuldbindingar Landsbankans vegna Icesave, er oft talað um að minni fjármálamarkaða sé stutt, sem reyndar er ein meginstoðin í kenningu bandaríska hagfræðingsins Eugene Fama um skilvirka markaði, og að markaðir horfi fram á veginn í stað þess að einblína í baksýnisspegilinn. Þá er því oft haldið fram að löndum sem valið hafi leið greiðslufalls hafi farnast ágætlega í kjölfarið, í ljósi þess að minni markaða sé stutt hafi lánardrottnar einfaldlega afskrifað skuldirnar þegar þeim var ljóst að ekkert væri upp úr því að hafa að halda kröfunum við.

Valkvæmt greiðslufall

Þekktustu dæmi síðustu tveggja áratuga um greiðslufall ríkja eru án efa greiðslufall Rússlands árið 1998, sem m.a. setti stærsta vogunarsjóð heims á þeim tíma (Long Term Capital Management) á hausinn, og Argentínu árið 2002. Greiðslufall Argentínu er enn í dag hið stærsta í sögunni en erlendar skuldir argentínska ríkisins voru þá um 100 milljarðar Bandaríkjadala. Fari svo að annað hvort Grikkland eða Írland velji að greiða ekki af erlendum lánum sínum mun met Argentínu væntanlega verða slegið en enn er of snemmt að segja til um hvort eða hvenær svo fer. Hér er hvorki pláss né ástæða til þess að rekja ástæðurnar fyrir greiðslufalli Argentínu í neinum smáatriðum en þó er rétt að víkja nokkrum orðum að aðdragandanum.

Um miðjan 10. áratug síðustu aldar hófst efnahagskrísa í landinu, sem á öndverðri 20. öldinni var í hópi öflugustu hagkerfa heims, og undir lok áratugarins var kreppan orðin að veruleika. Einn af helstu veikleikum argentínska hagkerfisins var fyrirkomulag gjaldeyrismála í landinu en argentínski pesóinn var fastbundinn bandarískum dollar á genginu 1 pesó/dollar og gat því hver sem var gengið inn í næsta banka í Argentínu og skipt pesóinum sínum yfir í dollar, sem að sjálfsögðu var gjaldgengari gjaldmiðill annars staðar í heiminum.

Þegar verðbólguskeið skall á í upphafi þessarar aldar gat argentínski seðlabankinn ekki brugðist nægilega harkalega við, vegna þessa fyrirkomulags gjaldeyrismála, og þegar fjárfestar, og almenningur, sáu fram á að verðmæti pesóanna myndi minnka mikið gripu þeir til þess ráðs að skipta í stórum stíl yfir í dollara. Margir fluttu dollarana sína síðan úr landi og þegar fjármagnsflóttinn var orðin staðreynd varð ljóst að ekki var nægilegt magn dollara til í landinu til þess að standa við erlendar skuldir. Í janúar 2002 tilkynntu stjórnvöld í Buenos Aires því þá ákvörðun sína að standa ekki við vissar skuldir ríkissjóðs, svokallað valkvæmt greiðslufall (e. selective default). Auk þess var fastgengisfyrirkomulagið numið úr gildi.

Samið um greiðslu

Með þessu tókst stjórnvöldum að koma fótunum undir argentínska hagkerfið og efnahagsbati hófst undir lok ársins 2002. Argentínskar útflutningsvörur voru orðnar ódýrar og auk þess var hægt að fjárfesta því fé sem ella hefði farið í greiðslu skulda í hagkerfinu. Greiðslufallsins vegna varð Argentína hins vegar hálfgert úrhrak á fjármálamörkuðum og var þetta fyrrum efnahagsstórveldi dregið í dilk með löndum á borð við Súdan, Afganistan og Zimbabwe. Í kjölfar umfangsmikilla málaferla neyddist landið árið 2005 til þess að semja um greiðslu hluta þeirra skulda sem áður höfðu verið látnar mæta afgangi, með töluverðum afslætti og var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meðal þeirra lánardrottna sem þá fengu sitt endurgreitt. Þess má líka geta að þegar Rússar kusu leið greiðslufalls árið 1998 var samið um greiðslu skulda, með afföllum, aðeins þremur mánuðum eftir greiðslufallið.

Víkjum aftur að Argentínu. Málaferli standa í einhverjum tilvikum enn yfir og sömuleiðis hafa alþjóðlegir fjármálamarkaðir verið Argentínu óaðgengilegir allt frá árinu 2002. Það er fyrst nú, árið 2011, að ríkissjóður landsins eygir sína fyrstu skuldabréfaútgáfu á alþjóðlegum markaði. Hagkerfið hefur hins vegar vaxið hratt á undanförnum árum og hefur hagvöxtur verið yfir 5% um nokkurra ára skeið. Í þeim skilningi hefur landinu því farnast ágætlega en Argentína býr enn við lélegt MYND/AFP lánstraust.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.