Aðalmeðferð í skuldamáli Glitnis banka gegn Hannesi Smárasyni og þremur félögum í hans eigu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málið snýst um tvo lánasamninga sem félagið Prímus ehf., sem nú heitir FI fjárfestingar ehf., gerði við Glitni í lok árs 2007. Félagið var í eigu Hannesar og sjálfur var Hannes í sjálfskuldarábyrgð fyrir 400 milljónum króna af heildarláni. Alls hljóðuðu lánin tvo upp á 3,4 milljarða króna, hið stærra upp á 2,4 milljarða króna.

Auk Hannesar og FI fjárfestinga er félögunum Hlíðarsmára 6 og ELL 49 ehf. stefnt en þar lágu fasteignaveð fyrir hluta lánanna. Í stefnu Glitnis er Hannesi gert að greiða 400 milljónir króna, FI fjárfestingum gert að greiða um 4,7 milljarða króna auk þess sem gengið er á fasteignaveðin. Lögmaður Hannesar fór fram á að stefndu verði sýknaðir.

Lánstími lengdur tvisvar

Í málflutningi Sigurbjarnar Ársæls Þorbergssonar, lögmanns Glitnis, kom fram að upphaflegt lán til Prímus ehf. hljóðaði upp á 2,4 milljarða króna og var samningur þess efnis gerður í desember 2007. Lánið átti að greiða 4 mánuðum síðar, í apríl 2008. Fyrir láninu lá sjálfskuldarábyrgð Hannesar upp á 400 milljónir króna og fasteignaveð sem Hlíðarsmári 6 og ELL 49 héldu um. Samkvæmt samningi átti sjálfskuldarábyrgð að falla niður þegar búið væri að greiða einn milljarð króna af 2,4 milljarða króna heildarláni. Fasteignirnar sem voru lagðar fram sem veð voru tvær fasteignir við Faxafen og sex lóðir.

Í janúar var gerður viðauki við lánasamninginn hjá áhættunefnd Glitnis en það var alls gert þrisvar. Í janúar voru lagðar fram auknar tryggingar fyrir láninu, hlutabréf í FL Group og Byr á 2. veðrétti auk þess sem ákvæðum um vaxtagreiðslur var breytt. Lögmaður Glitnis benti á fyrir dómi í morgun að hlutabréfaveðin reyndust síðar verðlaus.

Annar viðauki var gerður þann 7. apríl en þá var lánið komið á gjalddaga án þess að greiðsla hafi borist. Gjalddaga var frestað til 21. apríl.

Þriðji viðauki var síðan gerður í áhættunefnd Glitnis þann 29. júní 2008 þar sem nýr gjalddaga á höfuðstól og vöxtum er settur 31. ágúst 2009. Þá er persónuleg ábyrgð felld niður og vísað í sérstakt samkomulag sem aðilar gerðu þann daginn. Um samkomulagið og þýðingu þess var tekist á fyrir dómi í dag.

FI Fjárfesting tekur annað lán

FI Fjárfesting gerði annan lánasamning við Glitni banka sem greiða átti mánuði síðar, þann 21. janúar 2008. Lánsfjárhæð var milljarður króna. Fjórum dögum eftir settan gjalddaga var gjalddaga frestað til 21. febrúar 2008. Þá voru lagðar fram tryggingar,aftur hlutabréf í FL Group og Byr. Greiðslu var frestað að nýju til 7. Apríl 2008 og aftur á öðrum fundi áhættunefndar Glitnis fram í ágúst 2009. Aftur var vísað í samkomulagið á milli Hannes Smárasonar og Glitnis, sem fjallað er um hér að neðan.

Samkomulag um að selja Oddaflug BV

Samkomulagið varðaði hollenska félagið Oddaflug BV sem var í eigu Oddaflugs ehf. Það var í eigu FI fjárfestinga (áður Prímus), félags Hannesar. Samningurinn var gerður 29. júní 2008 og gjalddagi settu 31. ágúst 2009.  Alls námu skuldir samstæðunnar við Glitni um 10,2 milljörðum króna.

Gerð var tillaga að úrlausn hjá áhættunefnd um að selja öll hlutabréf Oddaflugs til Fons á genginu 16,8 og greiða með þeim fjármunum lán félaga Hannesar. Þannig yrði hægt að fella niður sjálfskuldarábyrgð. Vegna taps af eignarhaldsstarfsemi Oddaflugs BV mátti nýta til skatta um 420 milljónir evra í Hollandi, að því er kom fram í máli Sigurbjarnar Ársæls lögmanns Glitnis. Hann benti þó á, í nýjum skjölum sem lögð voru fram í dag, að samkvæmt hollenskum lögfræðingum sé það erfitt þar sem lög þar í landi komi í veg fyrir slíkt. Lögunum er gert að koma í veg fyrir misferli.

Glitnir og Hannes gerðu samkomulag um að vinna sameiginlega eða í sitthvoru lagi að koma Oddaflugi BV í verð en innan þess félags var bókfært tap, skattalegt, sem litið var á sem eign. Í samningnum var kveðið á um að skuldara, þ.e. Hannesi og FI fjárfestingum, verði gefið ráðrúm til að koma eigninni í verð og greiða þannig skuldir. Ekki yrði gengið að veðum fyrr en að minnsta kosti tveimur árum eftir að gengið yrði að kröfum á hendur skuldara, samkvæmt samningnum sem gerður var 29. júní 2008.

Lögmaður Glitnis taldi fyrir dómi í morgun að þessi klausa samkomulagsins verði ekki skilin öðruvísi en svo að það hafi verið forsenda að eignin skili einhverri greiðslu. „Menn voru að þessu til þess að vinna tíma til að koma eigninni í verð. Ef það myndi skila einhverjum árangri þá skyldi tekið tillit til þessa. En það verður að hafa forsöguna í huga, lánið [innsk. blaðam. milljarða króna lánið]  átti að greiða mánuði eftir að það var greitt út og lánunum var breytt tvisvar og þrisvar. Þegar samkomulag var gert voru lánin í vanskilum og ábyrgðin á stefnda var gjaldfallinn. Þarna er verið að ræða það að bíða með að innheimta og láta reyna á hvað kæmi út úr svokallaðri eign,“ sagði Sigurbjörn Ársæll lögmaður Glitnis í málflutningi sínum. Hann telur því að samið hafi verið um frest en ekki gjalddaga.

Túlkar samkomulag á annan hátt

Gísli Guðni Hall, lögmaður Hannesar, hóf málflutning sinn á að rifja upp mál Glitnis gegn skjólstæðingi sínum og sex öðrum fyrir dómstólum í New York. Hann sagði afleiðingar þess máls gríðarlegar, bæði fyrir stefnanda og stefndu. Hann lagði áherslu á að allar staðhæfingar bankans séu ósannaðar og að maður skal talinn saklaus un sekt er sönnuð. Þó málið sem tekið var fyrir í héraði í dag sé af allt öðrum toga taldi Gísli Guðni mikilvægt að vekja athygli á málinu í New York. Þrýstingur verði ekki lagður á dómstóla með þessum hætti.

Um skuldamál Hannesar og félaga í hans eigu sagði hann að vinnubrögð skilanefndar Glitnis hafi ekki verið í lagi. Í samkomulaginu sem gert var í júní 2008, þar sem gjalddaga er frestað fram í ágúst 2009, segir að Glitnis sé tilbúið að veita skuldara að minnsta kosti tveggja ára ráðrúm komi til þess að Glitnir geri kröfur á hendur honum á grundvelli samningsins, samkvæmt nánara samkomulagi. Ekki sé rétt hjá lögmanni Glitnis að forsenda hafi verið fyrir ákvæðinu að eignin, sem samið var um að komið skyldi í verð, skili tiltekinni greiðslu.

Eins og áður segir var tekist á um túlkun á samningsákvæði milli Glitnis og Hannesar. Lögmaður Hannesar telur að Glitni hafi borið afdráttarlaus skylda til að koma Oddaflugi BV í verð. Sú skylda hafi verið vanrækt. Þá var bent á að samkvæmt samningi um að ekki yrði gengið að eignum fyrr en að minnsta kosti tveimur árum eftir að lýst er krafa á hendur skuldara sé endatími ekki kominn, það verði ekki fyrr en í ágúst 2011.

Samning og ákvæði hafi verið samið af Glitni og því ber að túlka vafa bankanum í óhag. Það eigi sérstaklega við um óvenjuleg ákvæði. Ef samningurinn átti að falla úr gildi í lok ágúst 2008 þá hafi það átt að koma fram í sérstöku ákvæði, en kveðið var á um að greiðsla skulda skyldi fara fram „í síðasta lagi 31. Ágúst 2009“. Því beri að sýkna Hannes Smárason, að minnsta kosti að svo stöddu og að fullnustukröfur séu ekki hafnar.