Eins og fram hefur komið hafa nýlega fallið ólíkir dómar í tveimur málum sem bæði eru tilkomin vegna vanskila á greiðslum lánasamninga vegna bílakaupa. Um var að ræða svokölluð myntkörfulán.

Í báðum tilvikum stefna fjármögnunarfyrirtæki lánþegum vegna vanskila á lánum og í báðum tilfellum bera þeir stefndu það fyrir sig að ekki hafi verið heimilt að miða afborganir þeirra í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni.

Eins og fyrr segir komast tveir dómarar að ólíkri niðurstöðu. Í úttekt Viðskiptablaðsins um lögmæti myntkörfulána var farið yfir þessa tvo dóma.

Ekki efast um erlenda skuldbindingu

Í byrjun desember sl. vann SP Fjármögnun mál gegn einstaklingi sem tekið hafði myntkörfulán hjá félaginu. Í stuttu máli þá bar stefndi fyrir að samningurinn hafi verið í íslenskum krónum, þannig hafi höfuðstólsfjárhæðin verið í íslenskum krónum og aldrei hafi staðið annað til en að samningsfjárhæðin yrði greidd í íslenskum krónum.

Með það til hliðjónar hafi verið ólögmætt að gengisbinda lánið við myntkörfu þar sem lög um vexti og verðtryggingu mæli fyrir um að einungis sé heimilt að verðtryggja lánsfé með hliðsjón af vísitölu neysluverðs.

Páll Þorsteinsson, héraðsdómari, var þessu ósammála en í dómsúrskurði segir að ætla megi að heimilt hafi verið að binda afborganir lánsins í íslenskum krónum við gengi krónunnar gagnvart viðeigandi gjaldmiðlum. Ákvæði laga um vexti og verðtryggingu banni ekki að lán séu miðuð við gengi erlendra gjaldmiðla.

„Viðskipti sem mál þetta snýst um eru í erlendri mynt,“ segir í dómsúrskurði.

„Skuldbinding [stefnda] er í jenum og svissneskum frönkum samkvæmt samningi aðila. Engu breytir þó að erlenda myntin sé umreiknuð í íslenskar krónur við afborgun í hverjum mánuði og greitt hafi verið með íslenskum krónum [...].“

Þá segir jafnframt að stefnda hafi verið í sjálfsvald sett hvort hann greiddi til baka með íslenskum krónum eða með jenum og svissneskum frönkum. Erlent fé hafi verið lánað og lög standi ekki í vegi fyrir að hægt sé að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var.

Erlent lán en samt íslenskt

Í seinna málinu, og því sem vakti mikla athygli um miðjan febrúar, kemst Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari, að annarri niðurstöðu í svipuðu máli. Lýsing hf. hafði höfðað mál gegn einstaklingi og sjálfsábyrgðarmanni hans, vegna láns sem komið var í vanskil.

Líkt og í fyrra málinu bar stefndi fyrir sig að lánasamningurinn hafi verið ólögmætur í skilningi laga um vexti og verðbætur, þ.e. að ekki hafi verið heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

Þá bar stefndi það einnig fyrir sig að Lýsing sé fjármálafyrirtæki sem búi yfir sérfræðiþekkingu á lánastarfsemi og samningstaða aðila hafi því verið ójöfn. Málsvörn Lýsingar var svipuð og í fyrrnefndu máli. Meðal annars vísaði Lýsing til þess að stefnda hafi verið gert það fullljóst að skuld hans væri í erlendri mynt, ekki íslenskum krónum, þó afborganir væru umreiknaðar í íslenskar krónur.

Settur héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að sönnunarbyrðin á því að lánið hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðli lægi hjá Lýsingu og að fyrirtækið hefði ekki sannað þá staðhæfingu.

„Samningur aðila er í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar er í íslenskum krónum og ekki verður annað ráðið af samningi aðila en að seljandi bifreiðarinnar hafi fengið greiðslu frá stefnanda í íslenskum krónum. Þá verður leiguverð innheimt í íslenskum krónum [...],“ segir í dómsúrskurði.

„Samningurinn telst því vera í íslenskum krónum í skilningi [...] laga [...] um vexti og verðtryggingu.“

Þannig kemst settur dómari að þeirri niðurstöðu að lánið hafi í raun verið í íslenskum krónum og því ólögmætt að binda afborganirnar við erlendan gjaldeyri.

-----------------------------------

Nánar er farið yfir þá myntkörfulánin í úttekt Viðskiptablaðsins og þá sérstaklega fjallað um lagadeiluna sem komin er upp um lögmæti þeirra. Þá er einnig velt upp spurning sem snúa að því hvað gerist ef Hæstiréttur staðfestir seinni dóminn sem fjallað er um hér að ofan.