Það sem af er þessu ári nemur velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu 35 milljörðum króna miðað við þinglýsta kaupsamninga. Þetta er helmings samdráttur frá sama tíma í fyrra þegar veltan var um 77 milljarðar. Þá er þetta aðeins tæpur fimmtungur af veltunni á þessu tímabili árið 2007 en þá námu viðskipti með fasteignir 182 milljörðum króna.

Þetta kemur í ljós þegar rýnt er í tölur um veltu á fasteignamarkaði frá viku til viku aftur í tímann á vef Fasteignamats ríkisins.

Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku var 876 milljónir króna. Það segir sína sögu að í sömu viku í fyrra veltan 1.775 milljónir króna og í hittifyrra 4,8 milljarðar króna.

Alls var þinglýst 33 kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu þessa umræddu viku í ár (31. júlí til 6. ágúst), þar af voru 27 samningar um eignir í fjölbýli, 5 samningar um sérbýli og 1 samningur um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Meðalupphæð á samning 26,6 milljónir króna. Á sama tíma var tveimur kaupsamningum þinglýst á Suðurnesjum (samtals 45 millj. kr.), fimm á Akureyri (samt. 71 millj. kr.) og einum á Árborgarsvæðinu (22 m.kr.).

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í júlí 2009 var 182. Heildarvelta nam 5,8 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 31,9 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 4 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 1,5 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 0,3 milljörðum króna.

Þegar júlí 2009 er borinn saman við júní 2009 fjölgar kaupsamningum um 9,6% og velta eykst um 24,4%. Í júní 2009 var þinglýst 166 kaupsamningum, velta nam 4,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 28,1 milljónir króna.

Þegar júlí 2009 er borinn saman við júlí 2008 fækkar kaupsamningum um 50% og velta minnkar um svipaða hlutfallstölu. Í júlí 2008 var þinglýst 362 kaupsamningum, velta nam 11,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 32,3 milljónir króna.