Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, er allt útlit fyrir að þrjú ný félög verði skráð í Kauphöllina á næstu sex til 18 mánuðum.

Þórður sagði að svo virtist sem Færeyingar væru að feta sig inn á sömu braut og Íslendingar og þar eru mörg félög að skoða skráningu. Þórður sagðist ekki geta tilgreint einstök félög á þessu stigi máls.

Um þessar mundir eru til meðferðar í færeyska löggjafarþinginu lagafrumvörp er heimila einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það sem vekur líklega mesta athygli eru hugmyndir um að einkavæða flugfélagið Atlantic Airways og Föroya Banki.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er mikil vilji til þess að hefja þegar skráningaferli félagana um leið og þau verða einkavædd. Einnig má benda á að Sparikassin í Færeyjum er nú þegar aðili að Kauphöllinni hér á Íslandi og er einnig að skoða möguleika á skráningu eins og áður hefur komið fram. Því er vel hugsanlegt að tvö færeysk fjármálafyrirtæki verði skráð innan tíðar.

"Það er ekkert skrítið að Færeyingar horfi hingað því hér hafa mál gengið mjög vel. Einnig skiptir máli að stærð hagkerfisins hér er ekki mikil og svo erum við nýbúnir að ganga í gegnum það ferli sem þeir eru að feta sig inn á," sagði Þórður.