Kurbanguly Berdymukhademov, forseti Túrkmenistan, hefur tilkynnt um meiriháttar áform um uppbyggingu ferðamannaiðnaðar í landi sínu. Ríkisstjórn landsins hyggst verja einum milljarði Bandaríkjadala ásamt því að leitast eftir samstarfi við erlenda fjárfesta um uppbyggingu ferðamannastaðar við Kaspíahaf.

Kurbanguly Berdymukhademov tilkynnti um áformin á dögunum en uppbyggingin mun fara fram í bænum Túrkmenabashi. Bærinn heitir í höfuðið á fyrrum forseta og einræðisherra landsins, Saparmurat Niazov sem féll frá síðastliðinn desember, en hann kallaði sig einatt föður allra Túrkmena. Stjórnvöld hafa nú þegar fengið til liðs við sig tyrknesk verktakafyrirtæki til þess að taka þátt í uppbyggingu í bænum. Áformin verða seint bendluð við dverghug: Reisa á tugi hótela, heilsuhæla, veitingastaða og skýjakljúfa sem að sögn Natalíu Antelava, tíðindamanns breska ríkisútvarpsins (BBC) í Miðasíu, líkjast einna helst fútúrískum geimförum.

Ásamt því að verja fé til uppbyggingar hefur Berdymukhademov lýst því yfir að bærinn muni tilheyra fríverslunarsvæði og að stjórnvöld muni rýmka heimildir um vegabréfsáritanir handa erlendum gestum. Töluverð tíðindi felast í því þar semTúrkmenistan var eitt lokaðasta land heims í valdatíð Niazov. Jafnvel íbúar landsins þurftu heimild stjórnvalda til þess að ferðast milli héraða. Á þeim tíma voru erlendir ferðamenn sjaldséðir hvítir hrafnar og þeir fáu sem tókst að fá vegabréfsáritun til landsins komu gagngert til þess að upplifa þá sérstöku ríkisvæddu dýrkun á persónu þáverandi forseta, auk þess að sumum þótti forvitnilegt að taka þátt í hátíðarhöldum í tengslum við Melónudaginn svokalla. Segja má að nánast öll umræða landsins og menning hafi snúist um hina sérstöku persónu forsetans en frá því að Berdymukhademov tók við hefur borið á frjálsræðisgjólu í landinu. Svigrúm borgara til ferðalaga hefur verið aukið, ekki er lengur lagt bann við kennslu á erlendum tungumálum og íbúar landsins hafa nú að einhverju leyti aðgengi að Netinu.

Stöðugleiki tekinn fram yfir glundroða
En þrátt fyrir frjálsræðisgjólu undanfarinna mánaða verður ekki sagt að Túrkmenistan sé fyrirmyndarríki þegar kemur að mannréttindum þegna landsins. Fjölmiðlum er stjórnað af ríkisvaldinu að fullu og borgarar veigra sér við að gagnrýna stjórnarfarið. Hinsvegar hefur áðurnefnd Antelava eftir einum íbúa höfuðborgarinnar, Ashgabat, að þorri landsmanna kjósi frekar að ástandið þokist hægt en örugglega til frjálsræðisáttar þar sem að of mikið frelsi á skömmum tíma kynni að hafa í för með sér glundroða.