Þetta verður í allra mesta lagi hálftíma púl en tímakaupið gæti orðið miklu hærra en hjá nokkrum útrásarvíkingi - ef þú stendur þig vel.

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Dohop sem á vef sínum hefur boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun vegna fyrirhugaðra laga um ríkisábyrgð á Icesave samkomulaginu.

„Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á Austurvöll (eða í miðbæinn í þínum bæ) á fimmtudaginn kl. 12:00 og taka þar þátt í því að gera eins mikinn hávaða og þú mögulega getur. Bara í c.a. 20 mínútur. Þetta verður stuð! Taktu vinina með og næstu lúðrasveit. Vegleg verðlaun fyrir mesta hávaðann,“ segir Frosti á vef sínum.

Hann segir markmiðið með þessum gríðarlega hávaða vera að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra.

„Nóg erum við búin að þola samt. Enda er stríðir það líka gegn öllum lögum og siðgæði að láta okkur borga. Á það hafa margir bent bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þjóðin á ekki að láta slíkt óréttlæti yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust,“ segir Frosti.

Sjá nánar á vef Frosta.