*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Fólk 11. júlí 2021 18:02

Frúin bauð á fyrsta rúntinn

Jón Þór Gunnarsson hefur tekið við af Jónasi Þorvaldssyni sem forstjóri Kaldalóns.

Sigurður Gunnarsson
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Eyþór Árnason

Jón Þór Gunnarsson hefur tekið við af Jónasi Þorvaldssyni sem forstjóri Kaldalóns. Jón Þór þekkir vel til Kaldalóns, en hann kom að ýmsum verkefnum félagsins á tíma sínum hjá Kviku og Gamma, sem voru áður með samning um stýringu fyrir Kaldalón.

„Kaldalón er með mjög góðan lóðabanka og ég hef haft umsjón með því að þróa reitina áfram. Ég hef því komið að þessum anga af starfsemi Kaldalóns þegar helstu áherslur félagsins voru á þróun og byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.“

Félagið hefur að undanförnu fært út kvíarnar og unnið að því að gera tekjuberandi eignir að grunninum í eignasafni sínu, til að mynda með kaupum á fasteignum sem hýsa hótelin Storm, Sand Hotel og Room with a View að hluta. Jón Þór segir ýmis tækifæri vera fólgin í þessari tilfærslu á starfsemi Kaldalóns vegna stöðunnar á fasteignamarkaðnum. Til lengri tíma litið horfir félagið þó til þess að hótelin muni ekki vega meira en 25%-30% af eignasafninu.

Kaldalón var skráð á First North-markaðinn í september 2019 og stefnir nú á aðalmarkað Kauphallarinnar á næsta ári.

„Ég hef mikla trú á því að þetta verði spennandi og skemmtileg vegferð sem muni reynast árangursrík því þetta félag hefur alla burði til að gera gífurlega vel,“ segir Jón Þór. „Innkoma sjóða í stýringu Stefnis, VÍS og Jonathan B. Rubini í hluthafahóp félagsins eru liður í þeirri stefnu Kaldalóns að auka vægi tekjuberandi eigna.“

Jón Þór er menntaður byggingarverkfræðingur, með B.Sc.-gráðu frá Háskóla Íslands og flutti svo út til Kaupmannahafnar og átti „tvö yndisleg ár“ þar sem hann kláraði M.Sc.- gráðu í byggingarverkfræði og þéttbýlisskipulagi frá Tækniháskóla Danmerkur. Í kjölfarið sneri hann heim til Íslands og vann hjá Mannviti við hönnunar- og verkefnastjórnun við verkefni á byggingarreitum. Í lok árs 2017 var hann ráðinn til Kviku og hefur síðan þá unnið að þróun fasteignasjóða þar, og síðar sjóðum í Gamma eftir að Kvika keypti félagið.

Jón Þór er giftur Salvöru Kristjánsdóttur, námsráðgjafa í Álftanesskóla, en þau kynntust þegar hann var sextán ára eftir að hún flutti í bæinn frá Ísafirði. „Ég var ekki með bílpróf á þeim tíma þannig að hún bauð mér á rúntinn. Mér þótti það afskaplega óþægilegt en sé ekki eftir því í dag.“

Jón Þór og Salvör eiga þrjú börn, á aldrinum sjö, fjögurra og eins árs. „Eins og verkfræðingi sæmir er þetta allt gert mjög skipulega: með sama millibili og allt eftir plani.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.