Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa var samþykkt á Alþingi í dag.

Í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu segir að markmið laganna sé að sporna við vaxandi atvinnuleysi með því að ýta undir að atvinnurekendur semji um lægra starfshlutfall við starfsfólk sitt í stað þess að grípa til uppsagna.

„Lögin gera heimilt að greiða fólki sem er í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður. Jafnframt verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður. “

Í tilkynnignu ráðuneytisins segir jafnframt að við afgreiðslu þingsins hafi verið samþykkt breytingatillaga frá félags- og tryggingamálanefnd um að atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi verði greiddar frá 1. nóvember síðastliðnum til þeirra sem fullnægja skilyrðum laganna frá þeim tíma.

Jafnframt hafi verið samþykkt tillaga nefndarinnar um aukinn sveigjanleika innan atvinnuleysistryggingakerfisins að því er varðar rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta. Í því felist að einstaklingar sem starfi sjálfstætt muni eiga þess kost að taka að sér tilfallandi verkefni í stað þess að stöðva reksturinn alveg án þess að missa við það rétt til atvinnuleysisbóta.

„Skilyrði fyrir þessu eru meðal annars að viðkomandi einstaklingur tilkynni skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstrinum sem leiði til tímabundins atvinnuleysis og skili til skattayfirvalda viðeigandi rekstrargögnum þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur.“

Lögin hafa verið birt á heimasíðu Alþingis og hvetur nú eru allir atvinnurekendur og launþegar hvattir til þess að kynna sér þessa rýmkuðu möguleika til að sporna við atvinnuleysinu.