Upp úr miðnætti hófust að nýju fundarhöld í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Geir H. Haarde hefur greint frá því að samkomulag hafi náðst við íslensku bankana um að þeir selji hluta erlendra eigna sinna og eftir því sem fréttastofa RÚV komst næst snérust fundarhöldin eftir miðnætti um útfærslu þeirrar hugmyndar.

Á fundinum voru auk Geirs H. Haarde þeir Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. Auk þeirra voru viðstaddir fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og íslensku bankanna, sem og fulltrúar erlends banka.

Eftir því sem fréttastofa RÚV komst næst var um að ræða fulltrúa bandaríska bankans JPMorgan, en þeir yfirgáfu Ráðherrabústaðinn laust fyrir kl. 02:00 í fylgd Tryggva Þórs Herbertssonar, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra.

Ekki hefur verið látið uppi hvað fram fór á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í gærkvöldi, en þeim lauk um miðnætti. Fyrir fundinn náði fréttastofa RÚV tali af Geir H. Haarde, sem vildi þá ekki láta uppi hvar hann myndi funda síðar um kvöldið. „Ég er að fara á leynifund í skjóli nætur,“ sagði Geir í gamansömum tón. Sá fundur virðist vera m.a. með fulltrúum JPMorgan.

Í fyrramálið mun ríkisstjórnin funda með forystumönnum stjórnarandstöðunnar og seinna, kl. 11:00, með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna.

Þetta kom fram í útvarpsfréttum Rásar 2 kl. 02:00.