Félag í eigu Novators fékk í síðustu viku tilraunaleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun um rekstur UMTS farsímakerfis. Kerfinu er ætlað að þjóna þriðju kynslóð farsíma sem gerir miklar kröfur um þráðlausa burðargetu, segir í tilkynningu.

Þá hefur félagið sótt um leyfi til uppsetningar á WiMax gagnaflutningskerfi, sem mun bæta enn frekar þjónustuna við nýja kynslóð farsíma, segir í tilkynningunni.

Novator er kjölfestufjárfestir í símafélögum í fimm löndum þar sem komin er umtalsverð reynsla af uppsetningu og rekstri kerfa fyrir þriðju kynslóð síma þar sem m.a. er boðið upp á beinar sjónvarpsútsendingar í farsíma og þráðlaus fjarfundakerfi.

Þegar hefur verið stofnað félag um uppsetningu og rekstur kerfisins hér á landi. Stefnt er að hefja rekstur félagsins síðar á þessu ári. Novator hefur þegar hafið samstarf við hátæknifyrirtækið Industria um þróun lausna fyrir íslenska farsímamarkaðinn.

Tómas Ottó Hansson, framkvæmdastjóri hjá Novator, segir íslenska fjarskiptamarkaðinn áhugaverðan.

?Notkun farsíma og fjarskiptatækni er óvíða meiri en hér á landi og því ætti íslenski fjarskiptamarkaðurinn að geta verið einn hinn framsæknasti í veröldinni og bjóða upp á fjölmörg tækifæri til nýsköpunar og vöruþróunar, segir Tómas Ottó.

"Þrátt fyrir það ber íslenski fjarskiptamarkaðurinn mörg einkenni lítillar samkeppni þar sem verð á farsímaþjónustu til viðskiptavina er að jafnaði 50% hærra en á öðrum Norðurlöndum og þá hefur Ísland ekki verið í hópi þeirra landa sem fyrst hafi kynnt þær fjölmörgu nýjungar sem til verða á ári hverju á þessum síbreytilega markaði."

?Markmið Novators með uppsetningu og rekstri símakerfis fyrir þriðju kynslóð farsíma er að auka verðsamkeppni á íslenska símamarkaðinum og kynna fyrir Íslendingum þá fjölbreyttu fjarskiptaþjónstu sem slík kerfi geta boðið upp," segir Tómas Ottó ennfremur.