Bandaríski bílasalinn Jim Lynch sem um árabil seldi hinn tröllvaxna Hummer H1 torfærujeppa hefur söðlað um eftir að framleiðslu á bílnum var hætt. Nú hanga hríðskotarifflar, skammbyssur og önnur drápstól upp um alla veggi í bílasölunni við vægast sagt litla hrifningu forsvarsmanna General Motors bílasmiðjanna. Lynch lætur þá þó fá það óþvegið til baka að því er fram kemur í The Detroit News.

„Þetta byrjaði allt árið 2003 þegar væskilslegu aumingjarnir (pencil-necked sissies) hjá GM kynntu hinn kjarklausa þriggja tonna vælukjóa H2. Hann var þó frekar til heimabrúks en hið sterklega og dýra fyrirbæri sem H1 var sem dró að viðskiptavini úr öllum landshornum. Þegar framleiðslu á H1 var hætt féll salan fyrir björg.”

Lynch segir ekki mikla skynsemi í því að sitja og bíða eftir að kínverski framleiðandinn Sichuan Tengzhong Heavy Industrial Machinery fái leyfi til að kaupa Hummer vörumerkið og hefja framleiðslu að nýju. Þess í stað sneri hann sér að byssusölu og nú skreyta þar sali byssur frá Ruger, Smith & Wesson, Colt. Benelli, Bushmaster, Browning. FNH, H&K, CMMG og DPMS. Hummer merkið hangir þó enn uppi á veggjum.