Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing sýndi í gær fyrstu 787 Dreamliner vélina sem afhent verður í farþegaflug. Það er japanska flugfélagið All Nippon Airways sem mun fá fyrstu vélina afhenta í september nk.

Forsvarsmenn All Nippon Airways voru viðstaddir þegar vélin var sýnd í gær í verksmiðju Boeing norðan við Seattle í Bandaríkjunum eftir því sem fram kemur á fréttavef Reuters.

Framleiðsla 787 Dreamliner hefur ekki verið neinn dans á rósum fyrir Beoing eins og Viðskiptablaðið hefur oft greint frá. Vélin er framleidd af miklum hluta til úr koltrefjaefnum í stað áls og á um leið að vera um 20% sparneytnari en aðrar sambærilega vélar.

Fyrsta vélin, sem afhend verður í september sem fyrr segir, er þó um þremur árum á eftir áætlun. Á því eru þó fjölmargar skýringar, meðal annars sú að vélin var um tíma mun þyngri en áætlað var en þá hafa verkföll starfsmanna hjá Boeing, tafir á framleiðsluhlutum frá birgjum og önnur tæknimál tafið framleiðsluferlið.

Fyrsta vélin sem afhent verður mun taka 264 farþega, þar af 12 í viðskiptafarrými. Öll sæti vélarinnar eru búin afþreyingarkerfi, stærri handfarangursrými en áður þekkist, gluggum sem hægt er að dimma, stærri salernum og öðrum munaði.

Dreamliner vélin er nú á lokastigi flugprófana en í rúmt eitt og hálft ár hafa sex vélar verið nýttar í ýmsar hefðbundnar prófanir sem fram fara á nýjum flugvélum. Þannig er vélinni meðal annars flogið í miklu frosti, miklum hita, hliðarvindi, æfðar eru ýmsar sveiflur og dýfingar auk þess sem tæknimenn Boeing láta koma upp hinar ýmsu bilanir til að sjá hvernig stýrikerfi vélarinnar virka. Ferlið er langt og strangt enda ekkert til sparar þegar kemur að öryggi flugfarþega.

Nú þegar hafa tæplega 830 vélar verið pantaðar en þar af á All Nippon Airways 55 vélar pantaðar. Listaverð á nýrri 787 Dreamliner er um 200 milljónir Bandaríkjadalir. Tvær gerðir af vélinni verða framleiddar, annars vegar 787-8 sem nú er í framleiðslu og mun taka um 210 – 250 farþega í sæti. Flugdrægni hennar er um 8.000 sjómílur. Hins vegar er um að ræða 787-9 sem mun taka um 250 – 290 farþega í sæt en flugdrægni hennar er um 8.500 sjómílur. Framleiðsla á 787-9 er ekki hafin en gert er ráð fyrir að hún hefjist seint á næsta ári eða í byrjun árs 2013. Þá hefur Boeing ýjað að því að framleiða enn stærri gerð af vélinni, 787-10, en enn hefur ekkert verið staðfest í þeim efnum.