Fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands hefur verið sett á dagskrá sjóðsins 14. september næstkomandi.

Umfjöllun stjórnarinnar um fyrstu endurskoðunina hefur dregist um marga mánuði en upphaflega stóð til að hún færi fram í febrúar. Þá var hún sett á dagskrá stjórnar sjóðsins í byrjun ágúst en frestað á síðustu stundu.

Ef marka má dagskrá sjóðsins á vef AGS er nú miðað við að endurskoðunin verði rædd á fundi stjórnarinnar, sem fyrr sagði, 14. september. Á síðunni er þó tekið fram að dagskráin kunni að breytast.

Annar hluti láns AGS til Íslendinga verður ekki inntur af hendi fyrr en að lokinni fyrstu endurskoðun sjóðsins.