Mary Barra hefur verið ráðin forstjóri bandaríska bílaframleiðandans General Motors. Hún mun taka við af Dan Akerson, sem hefur stýrt fyrirtækinu síðastliðin þrjú ár. Akerson fagnaði 65 ára afmæli í október og mun setjast í helgan stein. Mary Barra skráir jafnframt nafn sitt á spjöld sögunnar enda er hún fyrsta konan til að setjast í forstjórastól hjá GM.

Barra kom til starfa hjá General Motors fyrir rúmum 30 árum og hefur í að verða tvö ár verið yfir framleiðslu og gæðastjórnun fyrirtækisins, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar .

Bandaríska tímaritið Forbes setur hana í sæti 35 á lista yfir valdamestu konur í heimi.

Leiðrétting: Barra er ekki fyrsta konan til að stýra bílaframleiðanda eins og kom í fyrsta fram í fréttinni.  Annette Winkler hefur verið forstjóri Smart, sem er í eigu Daimler, frá árinu 2010 og er hún fyrsta konan sem stýrir bílaframleiðanda í heiminum.