Fyrsti áfangi áætlunar um afnám gjaldeyrishaftanna - afnám hafta á innstreymi fjármagns - verður í fyrsta lagi 1. nóvember 2009, að mati Seðlabanka Íslands. Ákveðin skilyrði þurfa þó að vera uppfyllt fyrir þann tíma.

Höftin verða þó varla að fullu afnumin fyrr en að tveimur eða þremur árum liðnum, sagði Svein Harald Oygard Seðlabankastjóri á blaðamannafundi fyrr í dag. Þar var áætlun um afnám haftanna kynnt.

Þar kom fram að, að loknum fyrsta áfanga áætlunarinnar, yrði síðari áfanga - afnámi hafta á útstreymi fjármagns - smám saman hrint í framkvæmd í skrefum eða „eftir því sem Seðlabanki Íslands ákveður, með hliðsjón af því að gjaldeyrisforðinn hafi verið aukinn að því marki að hann dugi til að draga úr mögulegum gengissveiflum," að því er segir í áætlun Seðlabankans.

Meðal þeirra skilyrða sem Seðlabankinn setur er áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og peningastefna „sem hefur það að leiðarljósi að tryggja gengisstöðugleika [...]."

Sjá nánar hér.