Fyrsti fjárfestir Facebook, Peter Thiel, sem fjárfesti í fyrirtækinu fyrir 500.000 dollara árið 2004 og eignaðist 10,2% hlut í fyrirtækinu hefur selt um 20,6 milljónir hluta í fyrirtækinu eftir að það fór á markað. Þetta sýna skjöl bandaríska fjármálaeftirlitsins. Viðskiptin fóru fram í lok síðustu viku.

Flest viðskiptin fóru fram á verðbilinu 19,27-20,69 dollarar á hlut. Thiel seldi því hluti fyrir um 395,8 milljónir dollara í síðustu viku. Þess má geta að Thiel gat ekki selt hluti sína fyrr en þá vegna reglna sem settar voru við skráningu Facebook á markað. Hann á samt sem áður enn um 5 milljónir hluta í Facebook sem eru virði um 112 milljóna dollara, samkvæmt frétt Wall Street Journal.