Bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson skrifaði í sumar undir samning við stærsta samband heims í blönduðum bardagalistum, UFC (Ultimate Fighting Championship), sem opnar honum frekari möguleika á því að stunda íþróttina sem atvinnu sem hann gerir nú þegar í dag.

Eins og fram kom á vef Viðskiptablaðsins í sumar er þetta stærsti samningur sem íslenskur bardagaíþróttamaður hefur gert.

Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, hefur verið umboðsmaður hans frá upphafi og einnig tekið að sér umboðsmennsku fyrir fleiri aðila.

„Þetta byrjaði í raun þegar Gunnar var að byrja að fara út og keppa og reyna fyrir sér sem atvinnumaður,“ segir Haraldur í viðtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um aðdragandann að því að gerast umboðsmaður bardagaíþróttamanna.

„Ég sá þá um samskiptin við viðeigandi aðila fyrir hann og það vandist fljótt, enda er þetta áhugamál mitt fyrir svo ég tali nú ekki um mikilvægi þess að gera hlutina vel þegar maður er að vinna með syni sínum.“

Árið 2009, þegar Gunnar hafði slegið í gegn á móti í Barcelona á Spáni, settist Haraldur þó niður með honum og spurði hann hvort hann vildi ekki fá sér „alvöru“ umboðsmann. Að sögn Haraldar tók Gunnar það þó ekki í mál og bað karl föður sinn um að sinna þessu fyrir sig áfram.

„Ég tók þá ákvörðun í kjölfarið að gera þetta bara almennilega,“ segir Haraldur.

„Ég hafði m.a. samband við Arnór Guðjohnsen sem var mjög almennilegur og veitti mér góð ráð. Hann benti mér m.a. á það að í þessum bransa er ekkert mikilvægara en traust. Það var til staðar þannig að ég fór á fullt í þetta. Árni Ísaksson hafði síðan samband við mig og spurði hvort ég vildi vera umboðsmaður sinn, sem ég gerði. Nú er ég líka með Conor McGregor frá Írlandi auk þess sem ég hef verið að aðstoða hér nokkra aðila þó ég sé ekki formlega umboðsmaður þeirra.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Haraldur Dean yfir rekstur íþróttafélagsins Mjölnis og uppgang síðustu ára, starf sitt sem umboðsmaður, stöðu bardagaíþrótta í samanburði við aðrar íþróttir auk þess sem hann tjáir sig um rúman áratug í starfi hjá Samtökum iðnaðarins. Áskrifendur geta nálgast nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.