Með sömu rökum og þeim sem sem Seðlabankinn beitti fyrir sig þegar hann breytti reglum um gjaldeyrismál til að banna samninga við erlend tryggingafélög og sparnað í erlendum gjaldeyri er hægt að réttlæta að hverfa frá öllum þeim heimildum sem gera höftin bærileg fyrir almenning. Þetta er mat Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra sem hann viðrar í aðsendri grein í Fréttablaðinu . Hann veltir því upp í samræmi við aðgerð Seðlabankans hvort ekki sé einboðið að banna fólki að kaupa erlendar vörur með greiðslukorti?

Árni Páll segir dæmi um að fólk kaup dýrar erlendar vörur og endurselji í stórum stíl. Ef fólki er óheimilt að spara í erlendum gjaldeyri er borðleggjandi að banna kaup á erlendum vörum með greiðslukortum, að mati hans.

Árni Páll skrifar:

„Það eru ekki heldur tæk rök að núverandi staða mismuni gagnvart innlendum tryggingafyrirtækjum, því þeim sé bannað það sem erlendu fyrirtækjunum leyfist. Ef það væru tæk rök væru höftin ekki lengur neyðarráðstöfun til að verja þjóðarbúið gegn óviðráðanlegri hættu, heldur hagstjórnartæki eða tæknileg viðskiptahindrun sem ætlað væri að stilla viðskiptalífið af til að tryggja að innlendir aðilar stæðu alltaf framar erlendum í samkeppni.“