*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 18. mars 2021 13:59

Gætu þurft að selja í SFV og Fjallalambi

Ýmis skilyrði gætu verið sett fyrir því að Kjarnafæði, Norðlenska og SAH afurðir geti gengið í eina sæng.

Jóhann Óli Eiðsson
Sauðfjárbændur segja að samningsstaða þeirra gagnvart afurðastöðvum sé afar léleg eða engin.
Haraldur Guðjónsson

Kjarnafæði og SAH afurðum gætu mögulega þurft að selja eignarhluti sína í Fjallalambi og Sláturfélagi Vopnfirðinga til að samruni Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða geti náð fram að ganga. Þetta kemur fram í minnisblaði Samkeppniseftirlitsins (SKE) þar sem sjónarmiða er óskað vegna mögulegra skilyrða sem kunna að verða sett samrunanum.

Síðasta haust tilkynntu kjötvinnslufyrirtækin að þau hygðust renna saman í eina sæng. Frummat vegna samrunans lá fyrir í janúar og var andmælaskjal sent samrunaaðilum. Brugðist var við því með að leggja til ýmsar útfærslur til að leysa úr mögulegum samkeppnishindrunum. Var minnisblaðið tekið saman af því tilefni.

Að mati SKE eru tveir markaðir með slátrun stórgripa, annars vegar á norðanverðu landinu og hins vegar sunnanverðu. Er bent á það í minnisblaðinu að eftir því sem lengra er að sækja gripi í slátrun þá hækki kostnaður afurðastöðvar og verð til bænda lækki. Þá girtu lög og reglur um dýravelferð fyrir það að unnt væri líta á landið allt sem eitt markaðssvæði hvað slátrun varðaði. Aftur á móti var landið allt markaðurinn hvað vinnslu og heildsölu á kjöti varðaði.

Bændur telja samningsstöðuna veika eða enga

Í frummati SKE kom fram það mat eftirlitsins að sameinað félag myndi hafa háa markaðshlutdeild á sviðinu sem gæti leitt til alvarlegrar röskunar á samkeppni til tjóns fyrir neytendur og bændur. Þá gæti samruninn leitt til þess að erfitt yrði fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn og smærri keppinautar ættu á hættu að hverfa af markaðnum. Þá myndi verð til bænda tæpast hækka, samningsstaða þeirra versna og ábati af hagræðinu tæpast skila sér til neytenda.

Í aðdraganda frummatsins gerði SKE könnun meðal bænda um samningsstöðu þeirra gagnvart afurðastöðvunum. Kom þar til að mynda fram að ríflega fjórðungur sauðfjárbænda taldi samningsstöðuna enga og tæplega helmingur taldi hana mjög veika. Áþekkar tölur mátti sjá meðal hrossa- og nautgripabænda. Þeir sem töldu stöðuna mjög sterka voru teljandi á fingrum annarar handar.

„Könnun á meðal bænda sýnir hins vegar talsverðan metnað þeirra til aukinnar samkeppni. Þannig kváðust 30-49% sauðfjár-, hrossa- og nautgripabænda hafa áhuga á að sinna slátrun frá eigin býli. 25-40% kváðust hafa mikinn áhuga á því að taka kjöt eða skrokka heim til frekari vinnslu/sölu,“ segir í minnisblaðinu. Heimtökugjöld hafa hins vegar gert hið síðarnefnda erfitt. Rétt tæplega helmingur bænda segist hafa upplifað vandamál vegna skorts á samkeppni milli afurðastöðva og var hlutfallið hærra hvað sauðfjárbændur varðaði.

Bann við áskilnaði um heildarviðskipti?

Í minnisblaðinu eru talin upp nokkur möguleg skilyrði sem hægt væri að setja samrunaaðilum. Til að mynda gæti verið unnt að leggja bann við áskilnaði um heildarviðskipti þannig að bændum væri auðveldað að taka kjöt í heimavinnslu. Einnig væri hægt að semja um slátrun en leita síðan samninga hjá öðrum aðila um vinnslu. Þá kemur til greina að sameinuðu félagi verði gert að halda mismunandi starfsþáttum aðskildum í reikningsskilum sínum.

Þá kemur til greina, sem fyrr segir, að félögin þurfi að selja eignarhluta sína í Sláturfélagi Vopnfirðinga og Fjallalambi en Kjarnafæði er stærsti hluthafinn í því fyrrnefnda, með rúmlega þriðjungshlut. Gangi salan ekki eftir þyrfti fyrirtækið að reyna að selja þá á ný og skuldbinda sig á meðan til að hætta öllum afskiptum á grundvelli eignarhlutanna. Þá segir SKE að einnig þurfi að endurskoða viðskipti Kjarnafæðis við B. Jensen og svínabúið Hlíð.

Hefðbundinn frestur SKE til að ljúka meðferð sinni rann út 19. febrúar síðastliðinn en hann hefur nú verið framlengdur um 35 virka daga samkvæmt heimild í samkepnislögum. Með minnisblaðinu óskar SKE eftir sjónarmiðum áhugasamra um fyrirhugaðan samruna og möguleg skilyrði við honum. Frestur til að senda inn umsagnir er til mánudagsins 22. mars næstkomandi.