Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs birtist í gærmorgun þar kom fram að útlán Íbúðalánasjóðs námu 4 milljörðum í desember og er útgáfan því svipuð og hún hefur verið undanfarna mánuði eða frá því að KB banki hóf að bjóða upp á nýju íbúðalánin. Í Hálffimm fréttum sínum í gær gagnrýnir greiningardeild KB banka upplýsingagjöf skýrslunnar harðlega og þær upplýsingar sem þar koma fram.

"Litlar upplýsingar koma fram í skýrslunni aðrar en þær sem áður hafa birst í mánaðarskýrslum sjóðsins eða í fréttatilkynningum til Kauphallar Íslands. Upplýsingagjöfin gæti varla verið öllu knappari en haft skal í huga að Íbúðalánasjóður er stærsti útgefandi skuldabréfa á Íslandi. Bréf sjóðsins eru undirstaða íslensks skuldabréfamarkaðar og mynda verðtryggða vaxtaferilinn sem er undirstaða allrar verðlagningar á fjármagnsmarkaði og vaxtarófs á Íslandi. Þessu hlutverki gegnir sjóðurinn í krafti ríkisábyrgðar. Þær upplýsingar sem birtast í mánaðarskýrslum sjóðsins eru nær einu upplýsingar sem erlendir og innlendir fjárfestar hafa um framboð íslenskra verðtryggðra ríkisskuldabréfa," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Greiningardeildin gagnrýnir einnig harðlega að sjóðnum skuli þykkja vert að birta eftirfarandi upplýsingar í mánaðarskýrslu sinni:
"Nýliðið ár er umsvifamesta ár Íbúðalánasjóðs frá upphafi vega. Þær kerfisbreytingar á skuldabréfaútgáfu sjóðsins sem áttu sér stað í júní sl. leiddu til aukins svigrúms til raunvaxtalækkunar. Kerfisbreytingarnar hafa átt hvað stærstan þátt í raunvaxtalækkun undanfarinna mánuða sem hafa skilað mikilli lækkun á árlegri vaxtabyrði heimilanna."

?Með skiplagsbreytingunni hefur Íbúðalánasjóður einnig lækkað þóknanir um hundruði milljóna króna sem fjármálakerfið tók áður til sín af viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs við verðbréfaviðskipti með húsbréf. Nýtt skipulag við greiðslumat og lánsumsóknir tók gildi í byrjun desember. Viðskiptavinir sjóðsins geta nú sjálfir gert sitt eigið greiðslumat, í gegnum http://www.ibudalan.is, þeim að kostnaðarlausu í stað þess að kaupa slíka þjónustu af bönkunum eins og áður tíðkaðist. Þessi breyting hefur einfaldað mjög lánsumsóknaferli sjóðins og mun í framtíðinni spara viðskiptavinum tugi milljóna króna í beinan og óbeinan kostnað".

?Í áformum Íbúðalánasjóðs um hófsama hækkun hámarkslána og 90% veðsetningarhlutfall var tillit tekið til fasteignamarkaðarins og stöðu íslensks efnahagslífs. Innkoma banka og sparisjóða á fasteignalánamarkað hefur hins vegar leitt til hækkunar á fasteignaverði og aukið þrýsting á verðbólgu. Sveitarfélögin, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, gætu þó með samstilltu átaki, mildað þessi áhrif með aukinni lóðaúthlutun."

"Ekkert var hins vegar fjallað um uppgreiðslur lána, húsbréfa, húsnæðisbréfa eða eldri byggingasjóðsflokka, heildarfjárhæð lánsumsókna eða fjölda lána - þ.e. ýmsar þær upplýsingar sem skipta máli fyrir verðmyndun bréfanna," segir í Hálffimm fréttum.
Fróðlegt væri að vita hver ætlaður markhópur skýrslunnar er.