Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, gagnrýnir matsfyrirtækið Moody's harðlega fyrir ákvörðun sína um að lækka lánshæfiseinkunn portúgalska ríkisins um fjóra flokka. Hann segir margt benda til að einkunnagjafir gagnvart Evrópuríkjum séu hlutdrægar og telur þær ekki sanngjarnar. Reuters fréttastofa segir frá.

Barroso sagði við fjölmiðla í dag að leiðtogar Evrópu leiti nú leiða til að draga úr vægi stóru matsfyrirtækjanna, sem flest eru bandarísk, á framgang mála í Evrópu. Fjármálaráðherra Þýskalands tók undir orð Barroso. Hann sagði lækkun á lánshæfi Portúgals óréttlætanlega við núverandi aðstæður, þegar ríkið taki skref í átt að fjármálastöðugleika.

Barroso sagði matsfyrirtækin ekki búa við friðhelgi þegar kemur að mistökum og ýkjum.