*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 26. maí 2017 10:12

Gamma opnar í Sviss

Helgi Bergs stýrir starfsemi Gamma í Sviss þar sem félagið opnar skrifstofu síðar á árinu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Gamma Capital Management hefur ráðið Helga Bergs til að stýra starfsemi félagsins í Sviss, en stefnt er að opnun skrifstofu þar síðar á þessu ári, að því er segir í fréttatilkynningu. Helgi mun jafnframt vinna með öflugum hópi fyrirtækjaráðgjafar hjá Gamma, en það teymi telur nú samtals átta starfsmenn, í Reykjavík, London, New York og nú Sviss.

Helgi hefur tveggja áratuga reynslu af störfum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hann stýrði fjárfestingabankastarfsemi Kaupþings samstæðunnar frá London á árunum 2005 til 2008 og var þar áður framkvæmdastjóri Kaupþings í London. Helgi starfaði áður hjá Iceland Seafood International og hefur á undanförnum árum stýrt miðlunarstarfsemi verðbréfafyrirtækisins Birwood í London.

„Gamma hefur lagt mikla áherslu á að efla alþjóðlega starfsemi félagsins í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta til auka úrval fjárfestingarkosta erlendis. Gamma hóf starfsemi í London árið 2015 og vinnur að opnun skrifstofu í New York. Þriðja erlenda starfsstöðin verður því í Sviss og við gerum ráð fyrir að hefja starfsemi í Zürich í sumar,“ segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður Gamma

Það er mikið ánægjuefni að fá reynslumikinn mann á borð við Helga Bergs til þess að stýra starfseminni þar. Með öflugri fyrirtækjaráðgjöf í fjórum löndum mun Gamma nú geta boðið íslenskum fyrirtækjum og fjárfestum upp á alhliða ráðgjöf varðandi erlend fyrirtækjaverkefni, erlenda fjármögnun og samskipti við erlenda fjárfesta.“