Iceland Seafood International (ISI) hefur ráðist í 684 milljóna króna hlutafjáraukningu vegna kaupa félagsins á 80% hlut í spænska smásölufyrirtækinu Ahumados Dominguez, sem tilkynnt var um síðasta fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þá kom fram að kaupin, sem nema 12,44 milljónum evra, eða um 1,9 milljarða króna, yrðu fjármögnuð með lántöku og hlutafjáraukningu.

Hlutahafar Iceland Seafood hafa nú skráð sig fyrir 40 milljónum hlutum að nafnverði, á 17,1 krónu á hlut. Iceland Seafood safnar því 684 milljónum króna með hlutafjáraukningunni.

Bjarni Ármannsson, forstjóri ISI, skráði sig fyrir 4 milljónum hlutum fyrir 68,4 milljónir króna. Bjarni er stærsti hluthafi Iceland Seafood með 10,8% hlut í gegnum einkahlutafélagið sitt Sjávarsýn. Jakob Valgeir ehf. og FISK-Seafood ehf. skráðu sig bæði fyrir 5 milljónir hluti hvor að fjárhæð 85,5 milljónum króna og Nesfiskur keypti fyrir 51,3 milljónir króna. Framangreind fjögur félög eru stærstu hluthafar Iceland Seafood með samtals 41,4% hlut.