Geir H. Haarde segir stjórnvöld ekki hafa óskað eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Stjórnvöld hafi hins vegar rætt við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem eru hér á landi og auðvitað komi til greina að leita eftir aðstoð hans. Hins vegar sé ekki tímabært að taka slíka ákvörðun nú.

„Ég tel að framtíð fyrirtækja í landinu, alveg eins og framtíð íslensks efnahagslífs, verði björt og betri eftir að þetta er allt frágengið, og bjartari heldur en hún hefði orðið ef við hefðum haldið áfram með þetta óbreytt. Það var ljóst að íslenska þjóðarbúið reis ekki undir þeim skuldum sem á það var búið að hlaða, miðað við þá atburði sem gerst hafa úti í heimi. Það varð að grípa í taumana með afdrifaríkum hætti. Jafnvel þótt það verði erfiðleikar tímabundið í rekstri fyrirtækja munu þau standa betur að vígi þegar við erum komin í gegnum þetta.“

Hvernig ætla stjórnvöld að tryggja innistæður í íslenskum bönkum? Eigum við fé til þess?

„Vonandi mun aldrei á það reyna. Ég legg áherslu á að það er fullkominn óþarfi fyrir fólk að fara í bankann sinn núna og taka út reiðufé. Í fyrsta lagi munum við tryggja innistæðurnar. Í öðru lagi – með þessum skipulagsbreytingum sem við erum að beita okkur fyrir – eru engar líkur á öðru en að bankarnir geti staðið við þessar skuldbindingar sínar, sem felast í innistæðunum.“

_______________________________________

Í Viðskiptablaðinu á morgun er að finna viðtal við Geir H. Haarde forsætisráðherra. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .