Versnandi efnahagshorfur í íslenska hagkerfinu gera það að verkum að stjórnvöld eru líklegri en áður til að samþykkja áform Alcoa um að reisa nýtt álver á Bakka við Húsavík, segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í viðtali við Dow Jones-fréttaveituna.

Minnkandi hagvöxtur „gerir það meira líklegra” að hrundið verði af stað álversframkvæmdum við Bakka, segir Geir, „vegna þess að slíkar framkvæmdir myndu ekki aðeins þjóna hagsmunum fyrirtækisins,” heldur væru þær einnig til þess fallnar að vinna gegn niðursveiflu í íslenska hagkerfinu.

Geir segist reikna með því að hagvöxtur á þessu ári verði á bilinu 0,5-1%, en til samanburðar gerir Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) ráð fyrir 0,4% hagvexti.

Þrátt fyrir að Geir viðurkenni að erfitt sé að spá fram í tímann, þá telur hann engu að síður ólíklegt að spá OECD um 0,4% samdrátt árið 2009 verði að veruleika.

„Ég held að næstu tvö ár – 2008 og 2009 – verði sérstök að því leyti að þau munu einkennast af litlum hagvexti. En við vonumst eftir því að árið 2010 hefjist nýtt hagvaxtarskeið,” segir Geir.