„Ég var nýlega búinn að eiga samtal við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um að við þyrftum að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar fréttir bárust af því að Bretar væru búnir að setja hryðjuverkalög á  Landsbankann.“ Þetta sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á fundi Seðlabankans þar sem fjallað er um árin sem liðin eru frá hruni.

Geir sagði þessi hryðjuverkalög hafa komið Íslendingum í opna skjöldu. „Gordon Brown gaf aldrei neitt í skyn. Þegar ég reyndi að hringja í hann strax eftir að lögin voru sátt á náði ég ekki í hann. Því hafði ég samband við Alistair Darling, fjármálaráðherra”, sagði Geir og lýsti upphafsorðum samtalsins “hello Darling.”

Það hefur aldrei verið útskýrt hvers vegna Bretar tóku þessa ákvörðun gagnvart vinaþjóð en ljóst er að þetta hafði hræðileg áhrif á viðskipta- og efnahagslíf, sagði Geir.