Gengi Bandaríkjadals hefur lækkað hratt í morgun gagnvart helstu myntum og hefur gengi hans gagnvart evru ekki verið lægra frá vordögum 2005, segir Greiningardeild Glitnis.

Ástæðan virðist fyrst og fremst vera að hagtölur benda til að töluvert hægi á bandarísku hagkerfi á næstunni auk þess sem tiltrú neytenda og fyrirtækja vestra er heldur minnkandi þessa dagana. Við bætist að hagtölur á evrusvæði benda til þess að vöxtur þar gæti reynst öllu myndarlegri en áður var talið. Að þessu samanlögðu gera menn ráð fyrir að enn minnki vaxtamunur milli myntsvæðanna tveggja, segir Greiningardeildin.

Auk heldur gaf Seðlabanki Kína nýverið út skýrslu þar sem færð voru rök fyrir því að skynsamlegt væri að minnka hlutdeild dollara í gjaldeyrisforða asíulanda. Þegar þetta er skrifað hefur dollarinn lækkað í morgun um 1,1% gagnvart evru, 0,9% gagnvart bresku pundi og 0,5% á móti japanska jeninu.

Áhrifa lækkunarinnar er þegar tekið að gæta á evrópskum hlutabréfamörkuðum og er lækkunin þar mest í þeim geirum sem tengjast þróun dollara mest, s.s. bifreiðaframleiðendum og flugfélögum. Margar helstu hlutabréfavísitölur Evrópu hafa lækkað um og yfir 1% það sem af er degi, segir Greiningardeildin.