*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Erlent 5. október 2012 15:55

Gengi hlutabréfa Zynga hrynur í kjölfar afskrifta

Miklar væntingar voru bornar til leikjafyrirtækisins Zynga fyrir síðustu jól. Síðan þá hefur gengi hlutabréfanna hrunið um 76%.

Ritstjórn

Gengi hlutabréfa bandaríska leikjafyrirtækisins Zynga hrundi um 20% eftir að fyrirtækið gaf í gærkvöldi út afkomuviðvörun. Þar er dregið úr væntingum um hagnað af rekstri fyrirtækisins, að mestu vegna kaupa á leikafyrirtækinu OMGPOP í vor. Kaupverðið nam 183 milljónum dala, jafnvirði 22 milljarða íslenskra króna. Í afkomuviðvöruninni segir m.a. að um helmingur kaupverðsins hafi verið færður niður í bókum Zynga. Fyrirtækið býr til leiki á borð við FarmVille og aðra leiki sem hafa notið vinsælda á Facebook auk leikja í smátæki á borð við farsíma og spjaldtölvur.

Búist er við að afkoma Zynga verði um 1,1 milljarður dala á árinu sem er um 50 til 130 milljónum dala minna en áður var reiknað með. Þá er búist við að rekstrarhagnaður verði á bilinu 147 til 162 milljóna dala í stað á milli 180 til 250 milljóna dala. 

Þessu til viðbótar hefur útgáfa nýrra leikja verið frestað.

Gengið hrynur

Hlutabréf Zynga voru skráð á hlutabréfamarkað rétt fyrir síðustu jól. Hlutabréfin stóðu í 10 dölum á hlut í fyrstu viðskiptum og fór það hæst í 14,5 dali á hlut í mars síðastliðnum. Um svipað leyti voru háværar raddir um að gengi netfyrirtækja á borð við Zynga og Facebook væri of hátt skráð. Það er ekki að ósekju. Gengi hlutabréfa Zynga hefur síðan þetta var hrunið um 76% og stendur gengið nú - að viðbættu hruninu í dag - í rétt tæpum 2,3 dölum á hlut.

Stikkorð: Zynga