Hugsanleg yfirtaka KB banka á Singer & Friedlander hefur lengi verið í umræðunni. Stjórnendur KB banka hafa ekki viljað tjá sig um hvort að yfirtaka breska bankans sé efst á dagskránni heldur hafa þeir svarað á þá leið að bankinn hyggi á frekari vöxt í Bretlandi, Noregi og Finnlandi. Engu að síður virðist markaðurinn túlka þessar fréttir á þá leið að það styttist óðum í yfirtöku á Singer & Friedlander en gengi félagsins hækkaði um 3,6% á breska markaðnum í dag. Lokagengi bréfanna var 307,25 pens á hlut en gengið fór yfir 310 pens innan dagsins. Gengi Singer & Friedlander hefur hækkað mikið undanfarna mánuði en frá því í lok júní hefur gengi bankans hækkað um 32%.

Samhliða tilkynningunni um söluna á nýju hlutunum var birt óendurskoðað innanhúsuppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Samkvæmt því var hagnaður KB banka 5.547 m.kr. á þriðja ársfjórðungi en meðtalið er hagnaður danska bankans FIH. Hagnaður FIH á þriðja ársfjórðungi var 1.477 m.kr. eftir að tekið hefur verið tillit til afskriftar á viðskiptavild í móðurfélagi. Hagnaður KB banka án FIH var því 4.070 m.kr. á fjórðungnum, en Greiningardeild Landsbankans spáði 4.414 m.kr. hagnaði. Afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi er því lítilsháttar undir væntingum Greiningardeildar Landsbankans. Greiningardeildinni reiknast til að gengishagnaður vegna eignarhlutar í VÍS og Singer & Friedlander hafi verið í kringum 4 ma.kr. fyrir skatta á fjórðungnum og skýrir því stóran hluta hagnaðar á tímabilinu. Samkvæmt þessu er annar rekstur bankans því að skila minni hagnaði en vænst hafði verið annan fjórðunginn í röð.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.