Gengisfelling Kínverja, sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun, hefur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð og gengi gjaldmiðla víða um heim. Seðlabanki Kína felldi gengi kínverska yuansins um 2% í nótt vegna samdráttar í innflutningsverði og lítillar verðbólgu í landinu.

Kínversk fyrirtæki standa nú betur að vígi í samkeppninni við erlend fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu á alþjóðavísu. Bandaríska Dow Jones vísitalan lækkaði um 1% í dag og er lækkunin helst rakin til áhyggna af kínverska hagkerfinu og samkeppnisstöðu bandarískra fyrirtækja. Hlutabréf Apple lækkuðu um 3% í dag og er nærtækasta skýringin áhyggjur af sölu í Kína.

Ýmsir nýmarkaðsgjaldmiðlar, sér í lagi í Asíu, lækkuðu í dag og hefur gengi malasísks ringgit og indversku rúpíunnar ekki verið lægra síðan í asísku fjármálakrísunni árið 1997. Ávöxtunarkrafa þýskra og bandarískra ríkisskuldabréfa lækkaði einnig skarplega.