Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að ný peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynni um lækkun stýrivaxta um 0,5 prósentustig og vextir verði í kjölfarið 17,5%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en peningastefnunefndin birtir vaxtaákvörðun sína á fimmtudaginn.

Greining Íslandsbanka telur að forsendur hafi skapast fyrir lækkun stýrivaxta enda er  fátt sem haldi verðbólgunni uppi um þessar mundir þegar stöðugleiki hefur náðst á gjaldeyrismarkaði, slaki er á  vinnumarkaði og húsnæðisverð er byrjað að lækka.

Þá hafi hrávöruverð verið á niðurleið, sem og annar erlendur verðbólguþrýstingur.

„Málflutningur Mark Flanagan yfirmanns sendinefndar AGS  skýtur enn frekari stoðum undir þá spá að vextir verði lækkaðir á næsta vaxtaákvörðunarfundi seinna í vikunni og hugsanlegt er að þeir  verði þá jafnvel lækkaðir meira en við gerum ráð fyrir í okkar spá,“ segir í Morgunkorni en á s.l. föstudag sagði Flanagan á blaðamannafundi að skilyrði hefðu nú skapast fyrir vaxtalækkun enda hafi verðbólgan sem í upphafi árs mældist 18,6% nú farið niður í 17,6% og stefnir enn lægra á næstu mánuðum og þá hafi gengi krónunnar styrkst umtalsvert.

„Með stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sterkari krónu og lækkun verðbólgunnar eru forsendur fyrir því að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína hratt og verði komnir niður í 11,5% í lok þessa árs og 5,5% í lok næsta árs,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.