Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, segir í Fréttablaðinu í dag að gera þurfi meiri kröfur til starfsmanna borgarinnar í kjölfar launahækkana í kjarasamningum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þann 3. september síðastliðinn glímir Reykjavíkurborg við vanda í rekstrinum og á til að mynda ekki lengur fyrir afborgunum með veltufé frá honum. Útgjöld borgarinnar hafa aukist verulega á undanförnum árum. Tilraunir voru gerðar til að fá borgarstjóra til að tjá sig um málið, en þær báru ekki árangur.

Þörf á hagræðingu hjá borginni

Í Fréttablaðinu í dag segir Björk um kjarasamningana: „Þeir skiluðu sér að stærstum hluta til þeirra sem þurftu að fá talsverðar hækkanir. Þær voru sanngjarnar þessar launahækkanir en þær hafa orðið okkur talsvert dýrari en gert var ráð fyrir þannig að við þurfum að hagræða."

Björk bætir við: „Við þurfum líka kannski að gera meiri kröfur til þeirra sem fengu launahækkanir. Þó það sé ekki gaman að segja það, þá eins og með kennara, þeir fengu mjög góðar launahækkanir. Við verðum, og ekki bara gagnvart þeim heldur öllum öðrum líka, að fá meiri framleiðni út úr störfunum. Þegar maður er farinn að borga góð laun þá getur maður gert meiri kröfur og það er kannski hluti af þessari hagræðingu sem við þurfum að fara í. Við þurfum að krefja fólk um árangur og ég held við getum hagrætt innan kerfisins þannig og verið bara svolítið stífir atvinnurekendur.“