Það liggja fjölmörg tækifæri í auknu samstarfi Alaska og Íslands, hvort sem er á sviði orkunýtingar, flutninga eða í málefnum tengdum breytingum á norðurslóðum. Þá eru bæði svæðin vinsælir ferðamannastaðir og geta deilt af reynslu sinni og þekkingu á því sviði.

Þetta er mat þeirra Brian Holst og Hugh Short sem voru staddir hér á landi í síðustu viku ásamt um 30 manna sendinefnd frá Alaska. Sendinefndin dvaldi hér í fimm daga í síðustu viku til að kynna sér orku- og norðurslóðamál, efnahagsmál og viðskipti. Sendinefndin heimsótti fjölmörg ráðuneyti, fyrirtæki, skrifstofu forseta Íslands og fleiri aðila en ferðina skipulagði Institute of the North í Alaska í samstarfi við utanríkisráðuneytið og embætti forseta Íslands og er hún liður í að styrkja viðskipta- og stjórnmálatengsl á norðurslóðum.

Sem kunnugt er mun Icelandair hefja beint flug til Anchorage í Alaska næsta vor en Icelandair var einmitt eitt af þeim fyrirtækjum sem sendinefndin sótti heim. Búast má við auknu samstarfi heimamanna og Íslendinga í kjölfar áætlunarflugsins, hvort sem er í einkageiranum eða á opinberum vettvangi. Til upplýsinga má geta þess að flugvöllurinn í Anchorage er fimmti stærsti fraktflutningaflugvöllur heims þannig að þar kunna einnig að leynast tækifæri fyrir Icelandair.

Holst segir í samtali við Viðskiptablaðið að tilgangurinn með ferðinni hafi fyrst og fremst verið sá að læra af reynslu Íslendinga á sviði orkunýtingar.

„Við getum lært heilmikið af Íslendingum á þessu sviði,“ segir Holst en sendinefndin skoðaði m.a. Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun í ferð sinni. Nú er unnið að gerð 600MW vatnsaflsvirkjunar í Alaska en hingað til hafa olíuog gasauðlindir verið í fyrirrúmi í ríkinu og eru í raun stærstu þættir efnahagskerfisins í Alaska.

„Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Ísland og Alaska geti myndað með tímanum gott langtímasamband þar sem við deilum af þekkingu og reynslu hvors annars,“ segir Short.

„Við sjáum fram á spennandi tíma í Alaska á næstunni og einkaaðilar eru mikið að láta til sín taka í hinum ýmsu verkefnum. Þar spila orkumálin mikið inn í og við sjáum fram á að virkja vatnsafl mun meira en nú er gert og miðað við árangur Íslands af orkunýtingu þá getum við lært af því.“

Nánar er rætt við þá Brian Holst og Hugh Short í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.