Bónus hefur tilkynnt að héðan í frá munu viðskiptavinir geta skannað vörur beint ofan í poka og greitt fyrir þær við útganginn með aðstoð snjallforrits. Nýja sjálfsafgreiðslulausnin ber heitið GRIPIÐ & GREITT og virkar þannig að viðskiptavinir fá afhentan handhægan skanna við innganginn sem notaður er á meðan verslun stendur yfir.

Steinar J. Kristjánsson, upplýsingatæknistjóri Bónus, hefur leitt verkefnið áfram en vinnan við verkefnið hefur staðið yfir síðustu mánuði.

Hann segir að nafnið eigi sér sögulega tilvísun í birgðaverslun í Skútuvogi sem áður hét Gripið og Greitt. Lausnin sé að sögn Steinars mjög þægileg fyrir þá sem eru að kaupa fleiri og stærri vörur líkt og þeir sem versluðu í Gripið og Greitt á sínum tíma.

„Þessi lausn á ekki að leysa aðrar afgreiðslulausnir af hólmi, heldur er um að ræða nýja þjónustuleið fyrir viðskiptavini okkar sem kjósa að afgreiða sig sjálfir. Það er mikið hagræði í því fyrir viðskiptavininn að þurfa ekki að meðhöndla sömu vöruna mörgum sinnum heldur skanna beint í pokann – handtökunum fækkar því til muna“, segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.

„GRIPIÐ & GREITT byggir á trausti milli Bónus og viðskiptavinar og þannig viljum við hafa það. Við fylgjumst þó með til öryggis og tökum stikkprufur. Viðskiptavinir geta átt von á því að starfsmaður framkvæmi svokallað þjónustueftirlit þar sem innkaup eru skoðuð að hluta eða í heild á greiðslusvæði“

Viðskiptavinir byrja á því að ganga að tækjavegg sem staðsettur er í búðinni og fá úthlutaðan skanna sem tengist vildarkorti í gegnum nýtt Bónus snjallforrit. Hægt er svo að halda á skannanum eða festa hann á innkaupakerruna. Í grænmetis- og ávaxtakæli er sérstök snjallvog þar sem vörur eru vigtaðar og viðskiptavinir greiða eftir þyngd en ekki fjölda. Þegar verslunarferð lýkur fara viðskiptavinir á sérstakt GRIPIÐ & GREITT greiðslusvæði þar sem gengið er frá greiðslu.

„Við byrjum í áföngum, prófum þetta fyrst á Smáratorgi og svo detta búðirnar inn ein af annarri næstu mánuði ef viðskiptavinir taka vel í þetta. Þessi lausn þekkist víða í Evrópu og hefur gefið góða raun," segir Guðmundur.

Samhliða GRIPIÐ & GREITT er Bónus að gefa út sitt fyrsta snjallforrit þar sem viðskiptavinir munu geta séð vöruframboðið, búið til innkaupalista sem hægt er að deila og séð greiðslusögu sína.

„GRIPIÐ & GREITT byggir á trausti milli Bónus og viðskiptavinar og þannig viljum við hafa það. Við fylgjumst þó með til öryggis og tökum stikkprufur. Viðskiptavinir geta átt von á því að starfsmaður framkvæmi svokallað þjónustueftirlit þar sem innkaup eru skoðuð að hluta eða í heild á greiðslusvæði“, segir Guðmundur.