Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddi um hækkun endurgreiðsluhlutfalls á framleiðslukostnaði stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35% í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark. Þó hann telji að þessi ráðstöfun geti skilað heilmiklu inn í þjóðarbúið þá veltir hann fyrir sér hvort slíkt myndi ekki eiga einnig við um aðra geira.

„Þetta er auðvitað mjög hátt endurgreiðsluhlutfall,“ segir Bjarni. „Þú getur alveg velt því fyrir þér ef þú býður upp á þessi kjör fyrir aðra geira, hvað myndi koma hingað heim af umsvifum. Vegna þess að röksemdarfærslan hefur verið svolítið sú að þetta eru peningar sem ella myndu ekki koma. Það held ég að geti líka átt við um alls konar öðruvísi starfsemi.“

Bjarni segir að það sé alltaf spurning um það hversu langt eigi að ganga til þess að laða stór kvikmyndaverkefni að landinu.

„Þetta var mjög stórt skref sem var stigið að fara með endurgreiðslur fyrir stærri verkefni upp í 35%. Þar er í raun og veru verið að segja, við erum til í að borga 35% af framleiðslukostnaðinum eða endurgreiða […] Þetta skilur heilmikið eftir sig en við megum ekki endurgreiða allan kostnaðinn.“

Komi á óheppilegum tíma

Í tillögum Bjarna að breytingum við fjárlagafrumvarp ársins 2023 er lagt til að 4 milljörðum af fyrirhugaðri 37 milljarða króna útgjaldaaukningu ríkissjóðs verði ráðstafað til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á næsta ári. Alls verður því gert ráð fyrir 5,7 milljörðum í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í fjárlögum næsta árs.

Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna kvikmyndaverkefna árin 2017-2022.
Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna kvikmyndaverkefna árin 2017-2022.

Hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna stærri kvikmyndaverkefni úr 25% í 35% var samþykkt á Alþingi rétt fyrir þinglok í sumar. Breytingin var meðal kosningaloforða Framsóknar fyrir síðustu þingkosningar og var hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Bjarni segir að ríkisstjórnin hafi tekið þetta skref með það í huga að meta áhrifin næstu tvö árin.

„Það sem er aðeins óheppilegt núna er að það eru svo mikil umsvif í hagkerfinu, okkur beint vantaði þetta ekki akkúrat núna eins og hefur spilast úr hlutunum,“ segir hann og vísar til verðbólgunnar.

„En við erum að ganga í gegnum þennan reynslutíma og það er mikilvægt að við leggjum mat á þetta, hverju þetta er raunverulega að skila og hvað verður eftir. Ef við förum heiðarlega í gegnum það þá held ég að við getum lært ýmislegt af því að láta reyna á þessi 35%.“

Vonast til að ná stærri hluta af virðiskeðjunni

Bjarni fór einnig yfir rökin fyrir endurgreiðslunum. Með því að laða að stór kvikmyndaverkefni fái Ísland góða landkynningu. Einnig skapist þekking innan íslenska kvikmyndageirans og forsendur skapast fyrir að halda úti stórum kvikmyndastúdíóum um allan ársins hring.

„Í fyrsta lagi held ég að það sé óumdeilanlegt að framleiðsla héðan af Íslandi hefur verið að skila mjög góðri landkynningu og hún er verðmæt. Stærri verkefni sem sýna Ísland í sínu besta ljósi geta verið alveg gríðarlega verðmæt fyrir okkur. Þetta þekkjum við frá öðrum löndum, t.d. hvernig Lord of the Rings varpaði nýju ljósi á Nýja Sjálandi o.s.frv. Það er einn vinkillinn á því þó ég sé ekki að segja að við höfum gert þetta út af landkynningu.

Svo er líka annað í þessu, ef við viljum byggja upp getu, þekkingu og alvöru stúdíó hérna heima til þess að vera með framleiðslugetu þá þarf þessi stærri verkefni og meiri peninga til þess að halda stórum innistúdíóum gangandi á ársgrundvelli. Þá þarf að byggja upp þekkingu og getu hérna heima fyrir til þess að taka á móti slíkum verkefnum og vinna þau til enda. Það er m.a. spurning um það að við náum kannski að vera meira en bara tökustaður, að við getum líka skapað störf og virði fyrir samfélagið og tekið með þeim hætti stærri hluta af virðiskeðjunni.“

Bjarni bætir við að það sé gríðarlega mikil samkeppni á milli landa um að fá þessi verkefni til sín og að stórar fjárhæðir séu undir.

Bjarni ræddi um endurgreiðslurnar frá 50:49-55:18.