„Þetta er hluti af nýrri hluthafastefnu sjóðsins, gert til að fylgja fjárfestingum sjóðsins betur eftir,“ segir Heiðrún Jónsdóttir, formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs.

Lífeyrissjóðurinn auglýsti í síðustu viku eftir einstaklingum sem hafa áhuga á að sitja fyrir hönd sjóðsins í stjórnum fyrirtækja. Hæfisskilyrðin eru misjöfn eftir því um hvaða félög er að ræða en bæði er horft til menntunar og bakgrunns.

Heiðrún segir háskólamenntun ekki endilega skilyrði. Valnefnd Gildis muni svo fara yfir umsóknir í gagnagrunni og meta hverjir séu hæfir til að sitja í stjórnum tiltekinna félaga þegar þeirra er leitað. Almennt eru stjórnarfundir haldnir einu sinni í mánuði og geta þeir staðið í um tvær klukkustundir. Ætla má að stjórnarstörf taki tvo daga í mánuði alla jafna þótt þeir geti verið fleiri í einstaka tilvikum.