Stjórn Faxaflóahafna sf. (sem á og rekur Reykjavíkurhöfn, Grundartangahöfn, Akraneshöfn og Borgarneshöfn) samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Gísla Gíslason, bæjarstjóra á Akranesi, í starf hafnarstjóra frá og með 1. nóvember nk.

Bergur Þorleifsson, sem gegnt hefur starfi hafnarstjóra frá ágúst 2003 og áður starfi fjármálastjóra hafnarinnar, mun láta af starfi hafnarstjóra en sinna margvíslegum ráðgjafarstörfum fyrir hið sameinaða hafnarfyrirtæki.

Gísli Gíslason er fæddur í Hafnarfirði 9. júlí 1955. Hann er giftur Hallberu Fríði Jóhannesdóttur, kennara og skólabókasafnsfræðingi. Þau eiga þrjú börn saman, Jóhannes fæddur 1982, Þorstein, fæddur 1984 og Hallberu Guðnýju, fædd 1986. Gísli á einnig soninn Magnús Kjartan fæddur 1976, eðlisfræðing og vélaverkfræðing, sem er í doktorsnámi í Skotlandi.

Gísli tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1976 og hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands sama ár. Hann lauk embættisprófi frá lagadeildinni árið 1981 og öðlaðist réttindi héraðsdómslögmanns árið 1983.

Áður en Gísli lauk laganámi gengdi hann ýmsum störfum, var m.a. tvö sumur (1977 og 1978) í lögreglunni í Reykjavík og skrifaði íþróttafréttir fyrir íþróttadeild Morgunblaðsins (1978-1979). Eftir laganám hóf Gísli störf á lögmannsstofu Ragnars Aðalsteinssonar hrl. og var fulltrúi hans frá júní 1981 til 1. september 1983. Þá flutti Gísli á Akranes og opnaði þar lögfræðiskrifstofu sem hann rak til 1. september 1985. Hann var ráðinn bæjarritari hjá Akraneskaupstað 1. september 1985 og gengdi því starfi til 1. september 1987 er hann var ráðinn bæjarstjóri á Akranesi og hefur hann gengt því starfi síðan.

Gísli var árið 1989 skipaður í nefnd á vegum samgönguráðuneytisins um möguleika þess að grafa um 6 km löng göng undir Hvalfjörð. Hann var í stjórn Spalar hf. frá stofnun árið 1991, en fyrirtækið var stofnað til að undirbúa framkvæmdir við Hvalfjarðargöng. Gísli hefur verið formaður stjórnar Spalar ehf. frá 1996 þegar framkvæmdir við Hvalfjarðargöng hófust, en fyrirtækið er eigandi og rekstraraðili Hvalfjarðarganga.

Gísli hefur frá árinu 1992 verið fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Félagsdómi, setið í stjórn Hafnarsambands sveitarfélaga frá 1994 eftir að hafa verið varamaður í þeirri stjórn frá árinu 1987 og tók við formennsku í Hafnasambandinu árið 2004. Hann hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum Akraneskaupstaðar, samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambands sveitarfélaga. Þessar nefndir og stafshópar hafa fjallað um margvísleg máefni svo sem byggingu heilsugæslustöðvar á Akranesi (1987-1990), byggingu verndaðs vinnustaðar á Akranesi, samningu lagafrumvarpa, t.d. um vatnsveitu, hafnir o.fl. Gísli var í nefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var tengiliður við sveitarfélög á Grænlandi frá 1998 - 2002. Hann var í starfshópi sem vann að flutningi Landmælinga Íslands til Akraness og í stjórn stofnunarinnar frá árinu 1995 - 2000, varamaður í úrskurðarnefnd um hollustuvernd og heilbrigðishætti frá 1992, varamaður í stjórn Brunamálastofnunar frá 1990 til 1994, í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá 2000 ? 2002.

Gísli hefur verið í stjórn fjölda fyrirtækja. M.a. var hann formaður stjórnar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Heimaskagi hf. og loðnu- og síldarbræðslunnar Síldar- og fiskimjölsverksmiðja Akraness hf. frá 1988 til 1991 og formaður stjórnar útgerðar og fiskvinnslufyrirtækisins Krossvíkur hf, 1994 ? 1995, en þessi fyrirtæki sameinuðust öll Haraldi Böðvarssyni hf. Hann sat einnig í stjórn Skipasmíðastöðvar Þorgeirs og Ellerts hf. frá 1991 til 1994, var formaður stjórnar Verndaðs vinnustaðar á Vesturlandi frá 1987 til 1992, í stjórn Fjárvangs hf. frá 1997 ? 1999 og stjórn Sementsverksmiðjunnar hf. frá árinu 2002 til 2004.

Sem bæjarstjóri er Gísli formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar, situr í stjórnum tveggja minningarsjóða, hann var hafnarstjóri Akraneshafnar til ársins 2004 og Grundartangahafnar frá 2002 - 2004, situr í almannavarnarnefnd Akraneskaupstaðar og var þar formaður frá 1987 til 1998 og er formaður nefndar um ritun sögu Akraness.

Á yngri árum lék Gísli knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Reykjavíkur allt til ársins 1981 og körfuknattleik með sama félagi svo og Íþróttafélagi stúdenta og landsliði Íslands (1979 ? 1981). Frá 1985 til 1987 var Gísli í stjórn Íþróttabandalags Akraness og hefur tekið virkan þátt í íþróttalífi á Akranesi. Hann hefur frá árinu 1979 verið í dómstól Körfuknattleikssambands Íslands, sinnt ýmsum störfum fyrir Knattspyrnufélag ÍA og verið sæmdur gullmerki ÍSÍ fyrir störf að íþróttamálum.