Í fyrirspurnatíma eftir fyrirlestur Roberts Aliber í Háskóla Íslands setti hann fram þá skoðun sína að virkur gjaldeyrismarkaður ætti að vera forgangsatriði stjórnvalda.

Hann segir erfitt að spá fyrir um verðbólguna fyrr en að í ljós kemur hvar krónan stendur. Það komi ekki fullkomlega fram fyrr en að gjaldeyrismarkaðurinn verður virkur á ný.

Aliber sagði að krónan ætti eftir að veikjast almennilega og vænta mætti meiri veikingar. Hann sagðist hræddur um að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði notað til að styðja við krónuna og halda henni hærri en eðlilegt er.

Aliber sagðist óheppilegt, eða jafnvel heimskulegt, að taka upp evruna einhliða og festa þannig verð á Íslandi við verð í Evrópu og setja hagkerfið í spennitreyju. Afleiðingin yrði meðal annars mikið atvinnuleysi. Aliber sagði að mikilvægt væri að komast út úr vandamálunum sem nú steðja að með þeim tækjum og tólum sem Ísland býr yfir í dag.