Breski lyfjaframleiðandinn GlaxoSmithKline tilkynnti í morgun að til stæði að segja upp töluverðum fjölda starfsmanna sem hluta að endurskipulagningu félagsins.

Ekki kom fram í tilkynningu frá félaginu hversu mörgum verður sagt upp en að sögn breskra dagblaða stendur til að segja upp allt að 6.000 manns, flestum í Bretlandi.

Talsmaður félagsins vildi ekki staðfesta fjöldann í samtali við BBC en sagði að unnið væri í endurskipulagningu félagsins.

Hjá GlaxoSmithKline starfa um 100 þúsund manns en þar af starfa um 18 þúsund manns hjá félaginu í Bretlandi. Nú þegar hefur félagið sagt upp tæplega 1.000 manns á Bretlandi.

Harðnandi samkeppni er sagður meginvaldur fyrir endurskipulagningu félagsins en sala á samheitarlyfjum hefur dregist saman um tæp 20% á milli ára eftir því sem fram kemur í tilkynningu GlaxoSmithKline.

Í síðustu viku tilkynnti helsti samkeppnisaðilinn, AstraZeneca að til stæði að segja upp um 6.000 manns.